Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:20:51 (199)

1998-10-08 11:20:51# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:20]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki komið í veg fyrir að menn ræði um það að sá sem hér stendur stefni til annarra verka þegar líður á næsta ár. Það gæti farið svo með fleiri hv. þm. hér inni því að svo vill til að fyrri hluta næsta árs eru kosningar og ekki er alveg vitað hverjir muni sitja að þeim loknum eða hafa áhrif á stefnu sem Alþingi mótar að kosningum loknum. Ég bið menn að blanda því ekki sérstaklega inn í. Ég mun reyna að gegna embættum mínum, bæði þingmennsku og þeim ráðherraembættum, sem mér hefur verið falið að gegna af þeirri trúmennsku sem ég hef reynt að gera hingað til og ætla mér að halda því áfram en að öðru leyti er ekki meira um það mál.

Ég tel alveg nauðsynlegt að Íslendingar --- og við höfum auðvitað verið að vinna að því með stefnumótunarvinnu og framkvæmdanefnd um þessar loftslagsbreytingar --- stefni að því að taka á öðrum málum sínum en bara að tala um eða ræða um stóriðjuna. Við þurfum auðvitað að huga að því hvernig við getum mætt markmiðum þessa samnings eins og aðrar þjóðir eru að gera í atvinnugreinum okkar, sjávarútvegi, í umferðinni, í öðrum iðnaðarferlum og á öllum sviðum. Það er alveg ljóst. Ég hef einhvern tíma nefnt hér áður, af því að verið er að tala um Suðurnesin og atvinnuuppbyggingu þar, að við höfum heyrt talað um að mikill áhugi sé hjá Suðurnesjabúum og kannski öllum landsmönnum að tvöfalda Reykjanesbraut til þess að auðvelda umferð um þá fjölförnu leið. Það mun auðvitað auka umferðina. Það mun auka losun, það mun auka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Væri ekki kannski skynsamlegt að skoða aðrar leiðir, aðra möguleika í því efni til þess að draga úr umferð þó það kunni að kosta okkur peninga. Auðvitað kostar peninga að takast á við verkefni samningsins. Menn verða að gera sér grein fyrir því. Það gerir það og ef við ætlum í alvöru að standa við málin eins og við og ég hef marglýst yfir og ríkisstjórnin hefur gert, að lýsa yfir vilja sínum og áformum um að gerast aðili að bókuninni og síðan formlega samningnum þurfum við auðvitað að taka á ýmsum málum sem við höfum kannski ekki hugað nægjanlega að.