Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:26:12 (201)

1998-10-08 11:26:12# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:26]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafna algerlega þeim ummælum hv. þm. að umhvrh. sé í einhverri klemmu milli kollega sinna. Við erum að vinna sameiginlega að þessu verkefni og við höfum farið sameiginlega fram með þau sjónarmið sem ég hef talað fyrir í þessum ræðustóli bæði nú og áður. Það er því ekki heldur neitt nýtt í þeirri umræðu þó að bæði hv. þm. og sumir aðrir hafi reynt að draga þetta fram sem eitthvert stórstríð innan ríkisstjórnar eða milli ráðherra. Við erum sammála um áherslurnar í þessu, við erum sammála um það sem við fórum með til Kyoto á sínum tíma, og ég man ekki lengur hvort það var leiðari sem hv. þm. skrifaði í öðru hlutverki eða hvort það var í blaðagrein sem hann skrifaði eitthvað í þá átt, þegar við vorum að fara til Japans, að tillögur okkar yrðu auðvitað hlegnar út af borðinu. Þær væru svo fáránlegar og við svo dæmalausir sóðar að láta okkur detta þetta í hug en sagði svo þegar við komum til baka með það að hafa þó fengið viðurkennda ákveðna sérstöðu, eitthvað á þá leið að að sjálfsögðu hafi verið tekið tillit til sérstöðu Íslendinga á þessum fundi. Ég bið því hv. þm. að rifja þetta upp og kannski átta sig aðeins á því hvenær hann er í hvaða hlutverki í þessu efni þegar hann er að ræða annars vegar í ræðustól hér á Alþingi og síðan hins vegar að skrifa um svona hluti í fjölmiðlum sem hann hefur góðan aðgang að. Ég tel að okkur hafi borið að fara með sérsjónarmið okkar til fundarins. Við gerðum það og fengum tekið tillit til þeirra á vissan hátt, þ.e. sérstaðan var a.m.k. viðurkennd, og við höldum áfram að vinna í því máli og við höfum fengið undirtektir við þann málflutning okkar.

Hættan við loftslagsbreytingarnar getur verið mikil fyrir okkur ef verstu spár rætast sem koma fram í skýrslunni sem hv. þm. vitnar til og við vitum öll af. En það sem ég fer með í veganestinu er ég margbúinn að lesa hér upp, las upp í gær og las upp aftur núna. Af því að tíminn er því miður búinn get ég ekki lesið það upp í þriðja skiptið enda ástæðulaust. Við erum að tala um að tekið verði tillit til þeirrar sérstöðu okkar hvað einstakar framkvæmdir hafa mikil áhrif á losunarmarkmið okkar og losunarkvóta þegar álver í Grundartanga þýðir 13% aukningu, magnesíumverksmiðja ef það eru réttar tölur sem komu fram áðan um 10% af því sem var í upphafi áætlað, þá þýðir það samt 10% losun í viðbót, 10% bara sú eina verksmiðja.