Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:28:57 (202)

1998-10-08 11:28:57# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hæstv. ráðherra hefur lagt á minnið ýmislegt sem ég hef skrifað um þetta en það er eigi að síður rangt hjá honum að ég hafi nokkru sinni kallað hann sóða, hvorki í óeiginlegri né eiginlegri merkingu enda er hæstv. ráðherra snyrtimenni til orðs og æðis. Ég get ekki að því gert ef hæstv. ráðherra er ósammála mér um það sem ég og aðrir upplifa sem klemmu. Staða hans í ríkisstjórninni í þessu máli er í klemmu. Hann hefur ákveðna skoðun sem hann læðir að í máli sínu sem er talsvert frábrugðin þeirri sem aðrir hæstv. ráðherrar hafa.

Herra forseti. Ég lagði fyrir hæstv. ráðherra tvær spurningar og hann skaut sér undan að svara báðum. Annars vegar bað ég hæstv. ráðherra um að reyna að upplýsa þingheim um hvaða mat ríkisstjórnin hefur lagt á til hvaða aðgerða verði gripið gagnvart Íslandi ef við skrifum ekki undir Kyoto-samkomulagið. Í annan stað bað ég hann um að svara eftirfarandi spurningu: Er siðferðilega verjandi að þjóð eins og við, sem kunnum að eiga mest á hættu ef hlutirnir þróast á versta veg, að ætlast til að aðrir beri þær byrðar sem þarf að taka á sig til þess að koma í veg fyrir að Ísland verði óbyggilegt?

Í annan stað, herra forseti, finnst mér að við þurfum að ræða þetta miklu ríkara út frá hinu siðferðilega sjónarmiði. Það er alveg ljóst ef ekki tekst að snúa þessari þróun við í loftslagsmálum heimsins mun það leiða til þess að ýmsar þjóðir, sem eru jafnfjölmennar og við og búa að miklu lengri og e.t.v. merkilegri menningu en við, muni í bókstaflegum skilningi sökkva undir yfirborð hafs. Er verjanlegt að við stöndum hjá og höfnum því að taka á okkur þann skerf sem okkur ber til þess að snúa því við?

Herra forseti. Mér finnst að við þurfum að ræða þetta mál út frá slíkum þáttum, ekki bara út frá því hvort það eigi að setja niður magnesíumverksmiðju á Suðurnesjum sem skiptir engu máli varðandi þær gríðarlegu afleiðingar sem þessi þróun gæti haft fyrir fjarlægar þjóðir og mögulegar fyrir Íslendinga í framtíð sem er ekkert allt of fjarlæg.