Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:31:13 (203)

1998-10-08 11:31:13# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:31]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hugsar sér að gerast aðili að þessari bókun. Við erum að vinna að því að Ísland geti orðið aðili að bókuninni og síðan fullgilt samninginn, þannig að það er sú vinna sem er í gangi af hálfu umhvrh. og ríkisstjórnarinnar allrar með sameiginlegum áformum og markmiðum. Á þeim fundum sem við höfum sótt og í þeim tvíhliða viðræðum eftir Bonn-fundinn við aðrar þjóðir þá höfum við fulla ástæðu til að ætla að tekið verði tillit til okkar viðhorfa, og við getum gerst aðilar að bókuninni. Hvernig svo sem Buenos Aires-fundurinn fer þá verður ríkisstjórnin auðvitað að gera það upp við sig hvað hún ætlar að gera að honum loknum. Ætlar hún að taka þátt í samningnum og undirrita bókunina með þá niðurstöðu sem við fáum þar og þá út af fyrir sig líka að taka afstöðu til þess hvort við eigum að standa utan við og hvaða afleiðingar það kynni að hafa? Ég er því ekki reiðubúinn að tjá mig um það neitt frekar hér á þessu stigi. Við erum í þessu samningaferli og við höldum því áfram í því fari sem það er og hljótum að sjá hver niðurstaðan verður þar áður en við tökum ákvarðanir um annað.

Hvað það varðar að aðrir séu að bera fyrir okkar byrðarnar þá vil ég einu sinni enn undirstrika það sem ég hef margsinnis sagt og kemur fram í viðhorfum okkar til þess að fá að nýta hinar endurnýjanlegu orkulindir okkar og hreina orkugjafa með þeim hætti sem við erum að reyna að berjast fyrir, að það er auðvitað í anda samningsins. Það er í anda bókunarinnar sjálfrar þar sem eitt meginatriði hennar er að auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og losna við nýtingu jarðefnaorkugjafanna, eldsneytis sem mengar miklu meira en okkar orkugjafar. Þetta verð ég að undirstrika einu sinni enn af því að hv. þm. talar um að við ætlum öðrum að bera fyrir okkur byrðar. Ég undirstrika einnig það sem ég sagði áðan í lok andsvars míns til hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að ég tel að ríkisstjórnin og Íslendingar eigi að leggja á sig, þó það þurfi að kosta fjármuni, að standa við þau markmið sem samningurinn setur okkur. Við eigum auðvitað að gera það líka jafnvel þó svo færi að ríkisstjórnin skrifaði ekki undir bókunina, sem ég vona að verði ekki.