Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:41:42 (205)

1998-10-08 11:41:42# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru sannarlega merkileg innlegg sem koma frá talsmönnum þingflokks Sjálfstfl. í þessari umræðu. Þau eiga það skilið að koma með stórum fyrirsögnum á síður dagablaðanna og ég veit að hér eru menn inni sem geta haft áhrif á það.

Það er látið að því liggja af hv. þm. Pétri Blöndal að sú meginniðurstaða loftslagspanels Sameinuðu þjóðanna sem hefur legið yfir þessum málum, þúsunda vísindamanna sem hafa legið yfir þessum málum í áratug, geti verið byggð á sandi. Meginniðurstaðan er sú að það séu svo sterkar vísbendingar um það að losun gróðurhúsalofttegunda leiði til áhrifa á loftslag jarðar, gróðurhúsaáhrifa, að það er það sem gengið er út frá og þá auðvitað einnig með varúðarregluna að leiðarljósi, sem er viðurkennd sem eðlileg viðmiðun þegar slíkar breytingar geta verið yfirvofandi.

Og svo kemur hv. þm. og heldur bara að það sé hægt með einhverjum rannsóknum og góðum vilja að kollvarpa þessari kenningu. Þetta er með slíkum fádæmum að það tekur vart nokkru tali. Svo kemur hv. þm. hér, fóðraður af þeim sem vinna í þessu, það eru stórar fjárhæðir sem eru í gangi sem greiddar eru mönnum til að vinna gegn þessum sjónarmiðum. Það vantar ekki peningana í það.

Eitt af þessu er það sem hv. þm. nefndi með ósamræmið í niðurstöðum eftir mælingum frá gervitunglum og landstöðvum, ég held að það hafi verið þannig. Ég las um það á þessu ári að fundist hefði skýring á þessu misræmi, það væri ekki lengur til staðar. Ef ég er rétt upplýstur þá er þessi hluti fallinn.

Skylda okkar að nota hreina orku. Hvað felst í samningnum, loftslagssamningnum? Það eru skuldbindingar þjóðríkja með ákveðnum sveigjanleika. Svo er bara talað um það eins og við getum haft þetta eftir einhverjum óskalista. Það er aldeilis með ólíkindum að hlusta á þetta.