Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:52:28 (210)

1998-10-08 11:52:28# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég reyndi að haga máli mínu þannig að ég fullyrti sem allra minnst. Ég held ég hafi sett allt fram sem spurningar. Ég setti líka fram spurningar um þessa kenningu vegna þess að hún er byggð á vísbendingu að miklu leyti og fram hafa komið ýmsar athugasemdir við þessa kenningu frá málsmetandi vísindamönnum. Svo gat hv. þm. þess einnig að ég talaði í þverstæðum, þ.e. að ég vildi gæta ýtrustu varkárni en samt bíða. Það er ekki rétt. Ég lagði áherslu á að stundaðar yrðu miklar rannsóknir og sett ofurafl á rannsóknir til þess að finna út hvort þessi kenning sé rétt. Ég ætla ekki að bíða eftir því að Golfstraumurinn breytist, alls ekki. Ég geri þá kröfu til vísindamanna að þeir vinni hratt, finni út úr þessu og setji vísindalegan grunn undir þessa kenningu eða varpi henni fyrir róða. Það var það sem ég gerði.

Varðandi það að svona kvaðir á efnahagslífið örvi efnahagslega þróun tækni og vísinda, þá er það þekkt. Og það þarf að gæta að ýmiss konar annarri mengun, t.d. kolmónoxíðmengun eða blýmengun þannig að ég tel að kvaðir á þeim þáttum muni ekki síður valda þróun tækni og vísinda eins og þróun sparneytnari bíla og öðru slíku. Ég vil því bara að það sem menn gera sé stutt eins miklum líkum og sé eins rétt og hægt er.