Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 12:00:59 (214)

1998-10-08 12:00:59# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[12:00]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Nú líður að lokum þessarar umræðu sem staðið hefur yfir í allan morgun og í gær einnig. Það er því ástæða til, fyrir mig sem 1. flm., að reyna að draga saman nokkur af þeim atriðum sem komið hafa fram í umræðunni.

Meginniðurstaðan í þessari umræðu er sú að pólitískur ágreiningur ríkir um málið. Við, flutningsmenn úr þremur flokkum, höfum lagt til að undirrita beri Kyoto-bókunina nú þegar og hefja þann feril til staðfestingar sem þar er um getið. Ríkisstjórnin og hæstv. umhvrh. lýstu því hins vegar yfir að ekki væri á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að undirrita Kyoto-bókunina nú þegar, heldur láta reyna á viðhorfið til tillagna Íslendinga á fundi í Buenos Aires í haust.

Við höfum til stuðnings okkar málflutningi bent á að langflest ríki hafi þegar undirritað Kyoto-bókunina en séu jafnframt þátttakendur á ráðstefnunni í Buenos Aires. Það á eftir að útfæra ýmsa þætti í kringum Kyoto-bókunina og framhald þeirrar vinnu. Við flm. segjum: Þetta mál snýst um það hvort við viljum sýna ábyrgð í samfélagi þjóðanna og vinna gegn þeirri hættu sem losun gróðurhúsalofttegunda hefur í för með sér. Ríkisstjórnin hefur ekki þessa meginstefnu. Ríkisstjórnin hefur þá meginstefnu að gera enn atlögu að því að tryggja að við getum haldið áfram með stóriðjuáform okkar. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu um að ekki eigi að taka tillit til framkvæmda sem leiða til þess að losun gróðurhúsalofttegunda aukist um 5% af heildarlosun viðkomandi ríkis ef notaðir eru endurnýjanlegir orkugjafar og að losun frá iðnaðarferlinu sé haldið í lágmarki með bestu fáanlegu orku. Ríkisstjórnin lagði fram þá tillögu að ef þetta yrði uppfyllt þá ætti ekki að reikna aukninguna inn í mengunarkvótann. Hver voru viðbrögð hinna þjóðanna? Hæstv. umhvrh. hefur ekkert getið um það. Það liggur nefnilega fyrir hvernig aðrar þjóðir brugðust við.

Bandaríkin og samtök lítilla eyríkja lýstu yfir ákveðnum áhyggjum af þessari tillögu. Evrópusambandið sagði að þegar hefði verið tekið tillit til mismunandi samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda eftir ríkjum. Það var gert í Kyoto og þeir bentu á að Ísland hefði fengið rýmstu heimildir allra ríkja. Þeir töldu því ekki ástæðu til að veita frekari undanþágu. Fulltrúar Sviss sögðu að yrði þessi tillaga samþykkt væri trúverðugleika Kyoto-bókunarinnar ógnað. Þetta voru viðbrögð ríkjanna.

Hvað gerir íslenska ríkisstjórnin þá? Þá endurskoðar hún tillögu sína og leggur til að í viðbót þurfi að skilgreina lítil hagkerfi, að þetta eigi allt að vera utan reikninganna ef losunin sé ekki meiri en 0,05% af heildarlosun iðnríkja. Þar með falla stóriðjuáform Íslendinga undir þetta.

Eins og hér hefur komið fram er íslenska ríkisstjórnin að klæðskerasauma opnun á samningnum í Kyoto fyrir sig. Tvö ríki önnur munu falla undir þessa viðbótarbókun, það hefur verið nefnt hér: Mónakó og Liechtenstein. Hins vegar eru ekki fyrirhugaðar hjá þeim aðgerðir eins og hér hafa verið nefndar. Íslenska ríkisstjórnin leggur allt kapp á það í þessari umræðu að tryggja að hún þurfi ekki að breyta um stefnu. Þetta er pólitískt viðhorf sem við í stjórnarandstöðunni erum ósammála. Við segjum: Umhverfismálin, umhverfisógnunin af losun gróðurhúsalofttegunda er svo geigvænleg að okkur ber skylda til að taka þátt í því með öðrum þjóðum að leysa það. Vitaskuld eiga aðrar þjóðir í erfiðleikum við að uppfylla ákvæði Kyoto-bókunarinnar, en þær leggja þó ekki fram klæðskerasaumaðar tillögur til að gata þá stefnu sem mörkuð var í Kyoto.

Menn verða að hafa skýrt í huga að Kyoto-bókunin er einungis fyrsta skrefið. Margir vísindamenn segja: Meira að segja samþykktin í Kyoto dugir hvergi til við að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda. Það er þeim mun mikilvægara að menn axli ábyrgðina, reyni að uppfylla þetta og taka þátt í því með öðrum þjóðum. Nágrannaþjóðir okkar hafa allar tekið þann kost. Menn skynja þennan alþjóðlega vanda sem við ræðum ekki hér nema að mjög litlu leyti.

Ég hef kannski orðið fyrir mestum vonbrigðum með það í umræðunni að menn skynja ekki að hér erum við að tala um vandamál annarra. Hér hafa verið nefnd áhrifin á Ísland sem geta orðið geigvænleg, en ef ekkert verður að gert mun hitastig hækka meira á næstu öld en í 10.000 ár. Ef ekkert verður að gert fara 6% af Hollandi og 17% af Bangladesh undir vatn. Mér kemur það við. Það eru kannski einhverjir sem segja: Hvað kemur mér það við þótt Holland eða Bangladesh fari að hluta undir vatn? Ég segi að það komi okkur Íslendingum við. Þarna er sá pólitíski grundvallarágreiningur milli okkar og ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin vill ekki endurmeta atvinnu- og umhverfisstefnu sína. Hún hefur fullt tækifæri til að gera það með því að skrifa undir Kyoto-bókunina, vinna áfram með þjóðunum á fundinum í Buenos Aires og ræða málin áfram. Hún getur vitaskuld haldið áfram að gera það en með því að skorast úr leik á upphafsstigi málsins, taka ekki þátt í því sem nær allar þjóðirnar hafa þegar gert, er íslenska ríkisstjórnin að sýna ábyrgðarleysi.

Sýn ríkisstjórnarinnar og stefna er gamaldags, hún tekur ekki tillit til hinna breyttu viðhorfa. Ég segi fyrir mig að ég leit umhverfismál og stóriðjuáform allt öðrum augum fyrir 10 árum, jafnvel fyrir fimm árum. Það er ósköp eðlilegt. Menn eiga að endurmeta allar stefnur í ljósi breyttra aðstæðna og ég held að umhverfismálin séu hvað skýrust hvað það efni varðar.

Ég nefndi í framsöguræðu minni að við vildum taka upp mengunarskatt og tækifærið til þess hefði gefist í vor. Í skýrslu sem umhverfisráðherra lagði á sínum tíma fyrir Alþingi var því fagnað að breyta ætti þungaskattinum í olíugjald vegna þess að þar væri kominn vísir að mengunargjöldum. Hvað var gert? Hvað gerði þessi sama ríkisstjórn? Hún henti þessari hugmyndafræði út af borðinu og endurvakti gamla þungaskattskerfið sitt. Það er vegna þess, herra forseti, að ríkisstjórnin tekur þessi mál ekki alvarlega. Hún tekur það ekki alvarlega að hindra losun gróðurhúsalofttegunda. Vitaskuld á umræðan að vera á fullu um það hvernig við getum dregið úr mengun, t.d. hjá fiskiskipaflotanum þar sem þriðjungur losunarinnar er og í samgöngunum sem veldur öðrum þriðjungi. Sérstaðan í atvinnuháttum okkar er vitaskuld eitthvað sem við þurfum að taka á. Það væri hægt ef menn skynjuðu þetta sem vandamál, ekki einungis hér á landi, heldur sem hluta af alþjóðlegu vandamáli.

Það er rangt þegar því er haldið fram að þetta snúist um annaðhvort eða, að hætta eigi að virkja og hætta að byggja iðjuver. Málið snýst ekki um það. Við segjum skýrt: Það þarf að endurmeta stóriðjuáform eins og margt fleira. Það þarf að endurmeta orkunotkun í fiskiskipaflotanum og samgöngum. Þetta felur allt í sér aðra umhverfisstefnu og með því mundum við taka á með öðrum þjóðum.

Það er miður ef við getum ekki rætt þessi mál út frá vandamálum mannkynsins í heild en þurfum að blanda inn í þau tilteknum framkvæmdum eða kjördæmamálum á Íslandi. Mér finnst þetta mál vera miklu alvarlegra en það og við flm. höfum lagt málið upp með þeim hætti að draga fram hina siðferðilegu ábyrgð okkar Íslendinga í þessari umræðu. Við eigum ekki að skorast úr leik á alþjóðlegum vettvangi. Vitaskuld eigum við að gæta hagsmuna Íslendinga, það höfum við alltaf gert. Við náðum því fram í Kyoto með því að fá rúma heimild, og málin halda vitaskuld áfram á fundinum í Buenos Aires. Það skortir mikið á þá sýn, hjá ríkisstjórninni og hjá ýmsum sem tóku þátt hér í umræðunni, að ástæða sé til stefnubreytingar í þessum efnum.

Í dag eru allt önnur viðhorf gagnvart náttúrunni og gagnvart víðernum en áður. Mönnum eru miklu ljósari verðmæti þeirra svæða sem auðlindar, útivistarsvæða og hluta af lífskjörum framtíðar okkar en var fyrir nokkrum árum. Okkar pólitíska stefnumörkun er fólgin í að við viljum skrifa undir Kyoto-bókunina og taka þátt í þeirri samvinnu sem skapast hefur á alþjóðlegum vettvangi vegna þess að umhverfisspjöll eru mesta vá heimsins. Þau eru dauðans alvara.

Við höfum ekki leyfi til þess, við Íslendingar sem erum tiltölulega rík þjóð, gagnvart öðrum þjóðum að skorast úr leik. Við höfum margt fram að færa til umhverfismála á alþjóðavettvangi og við eigum að gera það. Við eigum að einhenda okkur í það en þá eigum við líka að hugsa út fyrir okkar gömlu hagsmunagæslu og gömlu atvinnustefnu. Það átti vel við fyrir nokkrum árum en á einfaldlega ekki við lengur við þegar kemur fram á næstu öld.

Um þetta efni er pólitískur ágreiningur, það er meginniðurstaðan í þessari umræðu en um það snýst jú pólitísk umræða, að reyna að draga fram ágreininginn, eins skýrt og hægt er. Ég tel að þessi ágreiningur milli flm. tillögunnar og ríkisstjórnarinnar sé algerlega ljós. Við viljum fara eina leið, ríkisstjórnin vill fara aðra.