Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 12:15:17 (216)

1998-10-08 12:15:17# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[12:15]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ekki stórmannlegt af hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni að veitast að þingmönnum sem eru ekki í þingsalnum. Hann gerði það gagnvart hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Hún tók þátt í umræðu í gær. Ég held að hún sé ekki í þinginu núna fyrir hádegi. Þetta eiga menn ekki að gera, herra forseti. Það er alveg eins og að vera að dylgja gagnvart hv. þm. Gísla S. Einarssyni, af hverju tekur hann ekki þátt í umræðu? Þingmenn hafa rétt til að vera hér, taka þátt í þeirri umræðu sem þeir kjósa. Ég man ekki til þess að menn hafi þannig verið þvingaðir upp í ræðustól og menn eiga ekki að tala þannig.

Ég reyndi að draga fram í síðustu ræðu minni meginþætti þessa máls og ég sagðist harma að menn gætu ekki litið á þetta mál í stærra samhengi. Menn vildu endilega reyna að færa þetta niður á spurninguna um eina verksmiðju til eða frá, fara með þetta inn í kjördæmakarp heima á Íslandi. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason heldur áfram í þeim efnum.

Það er alveg ljóst að við höfum svarað þessari spurningu. Henni er svarað í tillögutextanum. Henni er svarað í málflutningi mínum. Við segjum: Við viljum endurmeta stóriðjuáform. Það þýðir að endurmeta stóriðjuáform. Það eru ýmis stóriðjuáform í gangi hvort sem það er þessi verksmiðja eða önnur. Við tölum líka um sparnaðarátök á ýmsum sviðum eins og ég hef gert að umtalsefni. En það er ekki það sem hv. þm. er að leita að. Hann er að reyna að athuga hvort hann geti komið pólitísku höggi á mig sem þingmann Reykn. með því að nota umræðuna um magnesíumverksmiðjuna í þessu samhengi. Það er ekki umhyggja fyrir umhverfismálinu eða Kyoto-bókuninni sem rekur hann áfram í umræðunni. Nei, það er spurningin hvort hann geti komið höggi á pólitískan andstæðing út frá þessi máli. En svarið er algerlega skýrt. Það er ekki hægt að svara því öðruvísi en ég hef gert og þeirri spurningu er svarað þegar í tillgr. af okkur flutningsmönnum.