Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 12:18:58 (218)

1998-10-08 12:18:58# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[12:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. 1. flm. málsins segir: Svarið við spurningum um framkvæmdir á stóriðjusviði á Íslandi felast í tillögutextanum. Svarið við spurningunni um magnesíumverksmiðju á Reykjanesi, stækkun járnblendiverksmiðju og álverksmiðju í Hvalfirði, byggingu risaálbræðslu á Austurlandi felst í tillögutextanum. Hv. þm. getur ekki fært þetta í orð. Hann hefur ekki álit á þessum verkefnum, eða hvað?

Ég hlýt að vekja athygli á því að ekki er hægt að koma fram með tillögu af þessum toga og segja síðan að spurningin um stóriðjuframkvæmdir hér og þar á landinu, sem er á dagskrá ríkisstjórnarinnar og kappsmál ríkisstjórnarinnar, sé spurningin um einhverja kjördæmaafstöðu, verið sé að reyna að kljúfa menn eða ráðast að mönnum á grundvelli kjördæma. Það er ekki frambærilegt, virðulegur forseti, að setja málin svona upp. Spurningin sem menn standa frammi fyrir, hvort sem þeir eru þingmenn Reykjaness, Austurlands eða Vesturlands eða hvar það er á landinu, er um það hvort þeir eru reiðubúnir að leggjast á sveif með nýrri stefnu, hafna því að taka þátt í stóriðjuuppbyggingu og láta spila sig sundur og saman og flokka sína út á það að menn verði að fá að hafa svigrúm í þessu og hinu kjördæminu. Þannig verður stefna ekki til og þess vegna stendur auðvitað eftir spurningin gagnvart þingmönnum Reykjaness hvort sem það er hv. þm. Ágúst Einarsson, Rannveig Guðmundsdóttir eða aðrir. Eru þeir fylgjandi uppbyggingu magnesíumverksmiðju á Reykjanesi og hvernig samræma þeir það kröfunni um undirritun á Kyoto-samkomulaginu?