Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 12:21:05 (219)

1998-10-08 12:21:05# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[12:21]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur einungis einn þingmaður valdið mér vonbrigðum og það er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Við flm. eru að leggja upp með mjög merkilegt mál og ég tel að ég hafi fært fyrir því rök sem hv. þm. hefur einnig stundum haldið fram í þingræðum. Hann kýs hins vegar að fara með þetta mál nákvæmlega eins og sumir stjórnarliðar hafa verið að gera, tala um einn afmarkaðan þátt í þessu máli. Mér finnst hann með framkomu sinni í þessari umræðu ekki hafa gert umhverfismálum nokkurn greiða. Það er mat mitt á uppleggi hans inn í umræðurnar. Það segir í þessari tillögu, með leyfi forseta:

,,Hérlendis hefur því verið haldið fram að öllum stóriðjuáformum sé teflt í hættu ef við gerumst aðilar að samningnum. Það er rangt. Við getum dregið úr útblæstri fiskiskipa og samgöngutækja með markvissum aðgerðum og dregið úr áhrifum mengunar með aukinni gróðurrækt og skógrækt, en landgræðsla og skógrækt eru rædd í tengslum við útfærslu Kyoto-bókunarinnar. Vitaskuld munum við grípa til sparnaðaraðgerða auk þess sem tækniframfarir leysa hluta af þessu vandamáli. Einnig er líklegt að ýmis áform um orkufrekan og útblástursmengandi iðnað verði endurmetin.``

Hér er talað um nýja stefnu, stefnubreytingu. Hvernig þessi endurmetna stefna, endurmetin stóriðjuáform, verður gerð nákvæmlega get ég ekki svarað á þessari stundu en það er rangt að reyna að taka út eina verksmiðju og segja: Ertu með eða móti? Það er barnalegt. Það er fáránleg afstaða gagnvart því merka máli sem við erum að leggja upp með. Hér er lögð fram heilsteypt stefna, ný umhverfisstefna, sem ég hefði haft trú á að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mundi fagna. Nei, hann fagnar þessu ekki, kannski vegna þess að frumkvæðið kemur frá okkur eða vegna óvildar hans gagnvart mér eða Alþfl. í þessu máli og öðrum. Ég veit ekki hvað það er en hann var ekki að gera umhverfismálum greiða.