Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 12:28:01 (222)

1998-10-08 12:28:01# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[12:28]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson sagðist ekkert skilja í tillögunni og þá er náttúrlega lítið sem ég get sagt við því. Ég held að tillgr. sé skýr og ég held að ég hafi rökstutt hana hvort sem menn eru sammála því eða ekki. Ég get því ekki skýrt það betur í umræðunni.

Við erum ekkert að hlaupa frá neinum stefnumálum. Ég hef dregið alveg skýrt fram, þetta er stefnumál okkar í samfylkingunni. Við erum að fylgja því eftir með mjög skýru þingmáli. Ríkisstjórnin er ósammála þeirri stefnu sem við leggjum upp með.

Ég hef margoft svarað að við erum að endurmeta stóriðjuáform. Við erum að grípa til fjölþættra aðgerða til að bregðast við áhrifum Kyoto-bókunarinnar. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég hef sagt í því hvernig sú endurskoðun verður, það verður að koma í ljós.

Hv. þm. blandaði síðan öðru algerlega óskyldu máli inn í þetta sem er utanríkismál, hann fór rangt með úr málefnagrunni samfylkingarinnar. Þar er bent á að bókun um framkvæmd hluta varnarsamningsins rennur út og þær viðræður eru hafnar undir forustu utanrrh. Til hvers þær leiða veit ég ekki en það er líka alveg skýrt kveðið á um það í bókun okkar að úrsögn úr NATO eða eitthvað þess háttar er ekki á dagskrá hjá okkur. Ég bið menn að gæta sanngirni úr því að þeir blanda algerlega óskyldum þáttum inn í umræðuna. Við verðum, herra forseti, að gefa því betra rúm þá og ræða utanríkismál og skýra þau betur ef það er eitthvað óljóst í hugum hv. þm. Ekki skal standa á mér gagnvart þeim þáttum en mér finnst ekki vel við hæfi að ásaka okkur um að ætla að skapa einhverja hættu í atvinnuástandi á Suðurnesjum með utanríkisstefnu okkar. Það er einfaldlega rangt en því verður að svara og skýra betur síðar.