Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 13:35:01 (230)

1998-10-08 13:35:01# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[13:35]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fjallar um að húsaleigubætur verði skattfrjálsar líkt og vaxtabætur. Jafnframt mæli ég fyrir frv. til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur sem tengist þessu frv. Um er að ræða að verði fyrra frv. samþykkt, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, þá þarf að breyta ýmsum öðrum lögum, svo sem lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um húsaleigubætur. Flutningsmenn að þessum tveimur frv. eru auk mín hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Kristín Halldórsdóttir.

Markmið frumvarpanna er að tryggja að markmiðum laga um húsaleigubætur, um lækkun húsnæðiskostnaðar tekjulágra leigjenda, verði náð og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaði. Eins og ég nefndi í upphafi máls míns er um að ræða breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt í þá veru að húsaleigubætur verði skattfrjálsar en húsaleigubætur bera nú skatt.

Húsaleigubótum var komið á á árinu 1995 og var lögð fram skýrsla nefndar um húsaleigubætur og reynsluna af húsaleigubótum. Þar kemur fram að húsaleigubætur hafi sannarlega verið tekjulágum leigjendum til hagsbóta og stuðlað að framförum á leigumarkaði. Í skýrslunni segir, herra forseti, að um 70% bótaþega séu undir skattleysismörkum og 86% íbúða séu þriggja herbergja eða minni.

Það kemur fram í því að 70% bótaþega séu undir mörkum að þetta hefur fyrst og fremst nýst því fólki sem verst er statt í þjóðfélaginu og hefur úr minnstu að spila.

Auðvitað er mikið óréttlæti fólgið í að skattleggja húsaleigubætur meðan vaxtabætur eru skattfrjálsar. Nálægt 60% þeirra sem nú fá húsaleigubætur eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar, námsmenn eða einstæðir foreldrar. Hér er um að ræða tekjulægstu hópa þjóðfélagsins og húsaleigubætur og vaxtabætur eru hvort tveggja aðstoð samfélagsins til að auðvelda fólki að standa straum af húsnæðiskostnaði. Því má líkja við brot á jafnræðisreglunni þegar bætur sem komið er á í nánast sama tilgangi, þ.e. að auðvelda fólki að fá húsaskjól, hljóta mismunandi meðferð í skattkerfinu.

Ég vitnaði í skýrslu sem skilað var af nefnd á vegum félmrh. sem falið var að fylgjast með framkvæmd laga um húsaleigubætur. Þar er einmitt komið inn á skattlagningu húsaleigubóta og vil ég vitna í þann kafla, með leyfi forseta. Þessi kafli skýrir einmitt tilganginn þess að leggja þetta frv. fram. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur til að skattlagningu húsaleigubóta verði aflétt. Markmið laga um húsaleigubætur er að niðurgreiða húsnæðiskostnað hjá tekjulágum einstaklingum til samræmis við vaxtabætur sem greiddar eru íbúðareigendum. Húsaleigubótum er ætlað að jafna húsnæðiskostnað leigjenda og draga úr þeim aðstöðumun sem ríkt hefur með tilliti til þess hvort um er að ræða eigendur eða leigjendur að íbúðarhúsnæði.

Nefndin telur skattlagningu húsaleigubóta því vera gróft brot á þeirri grundvallarreglu skattaréttar, jafnræðisreglunni, að skattleggja húsaleigubætur á sama tíma og vaxtabætur eru skattfrjálsar.``

Hér er ég að vitna til skýrslu nefndar sem félmrh. skipaði, herra forseti, sem segir að skattlagning húsaleigubóta sé gróft brot á þeirri grundvallarreglu skattaréttar, jafnræðisreglunnar, að skattleggja húsaleigubætur á sama tíma og vaxtabætur eru skattfrjálsar. Áfram segir, með leyfi forseta:

,,Í þeirri reglu felst gróf mismunun sem ekki verður réttlætt á nokkurn hátt. Með skattlagningu húsaleigubóta er verið að viðhalda þeirri mismunun sem ríkt hefur um langt skeið á húsnæðismarkaðnum, þvert á markmið laga um húsaleigubætur. Skattlagning húsaleigubóta felur í sér að skattlagðar eru bætur til þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, tekjulægstu hópa samfélagsins, og skattfrelsi til handa þeim sem betur eru stæðir fjárhagslega, fasteignareigenda. Nefndin telur að við slíka mismunun verði ekki unað.

Skattlagning húsaleigubóta hefur einnig þau áhrif að aðrar bætur sem eru tekjutengdar skerðast, svo sem barnabótaauki. Áhrif húsaleigubóta á auknar ráðstöfunartekjur verða því mun minni en ætla mætti í fyrstu.

Þá getur skattlagning húsaleigubóta einnig haft þau áhrif að einstaklingi sem er á leigumarkaði og vill komast í eigið húsnæði verði hafnað í félagslega íbúðakerfinu vegna of hárra tekna.

Húsaleigubætur eru skattfrjálsar á öllum Norðurlöndum.``

Þessi skýrsla er unnin í lok árs 1995. Það sem gerst hefur í millitíðinni er að núv. hæstv. félmrh. hefur lagt fram frv. um breytingar á húsaleigubótum sem orðið er að lögum. Þar er gert ráð fyrir að skylda öll sveitarfélög til þess að taka upp húsaleigubætur en engu að síður lagði félmrh. ekki til, þrátt fyrir það sem fram kemur hjá þessari nefnd og ég var hér að lesa upp, að húsaleigubætur yrðu skattfrjálsar.

Sveitarfélögin hafa ítrekað sent áskoranir um skattfrelsi húsaleigubóta en hæstv. félmrh. ekki orðið við því. Ég geri ráð fyrir, herra forseti, nema annað komi fram við þessa umræðu, að hér sé kannski fyrst og fremst við Sjálfstfl. að sakast fremur en Framsfl. Ég þekki það frá tíð minni sem félmrh. að hv. sjálfstæðismönnum var illa við húsaleigubætur sem þó er ljóst, herra forseti, að er ein besta kjarabót sem láglaunafólk hefur fengið í langan tíma. Það hefur komið fram í skýrslum og úttektum sem gerðar hafa verið á reynslunni af húsaleigubótunum.

Í áðurnefndri skýrslu segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt upplýsingum ágústmánaðar er langstærsti hluti bótaþega einstaklingar eða um 46%. Kynjaskipting er nokkuð jöfn eða 47% karlar og 53% konur. Næststærsti hópurinn eru einstæðir foreldrar eða um 23% bótaþega. Í þeim hópi er kynjaskiptingin 97% konur og 3% karlar. 30% bótaþega eru giftir eða í sambúð.``

Því er ljóst að ef fallist verður á að húsaleigubætur verði skattfrjálsar, þá mun þetta koma einstæðum foreldrum sérstaklega til góða. Það mundi einnig gagnast hópi sem nokkuð hefur verið í umræðunni undanfarið og það eru öryrkjar. Þeir hafa ályktað í þessa veru og vil ég vitna í ályktun sem þeir hafa nýlega látið frá sér fara. Í ályktun Öryrkjabandalags Íslands segir, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdastjórn Öryrkjabandalags Íslands skorar eindregið á stjórnvöld að breyta lögum um húsaleigubætur, svo og skattalögum á þann veg að þessar bætur verði ekki skattlagðar svo sem nú er. Í langflestum tilvika valda hin lágu skattleysismörk því að leigjendur skila sjálfkrafa aftur nærri 40% húsaleigubóta sinna í skattgreiðslur.``

Af þessum fáu þúsundum króna sem lægstlaunaði og fátækasti hópurinn á Íslandi fær til þess að jafna húsnæðiskostnað á við þá sem eiga íbúðir, þarf að skila 40% í skattgreiðslur meðan þeir sem eru betur settir og fá vaxtabætur þurfa engu að skila af því í ríkissjóð. Síðan segir í þessari ályktun Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdastjórnin vekur sérstaka athygli á því hversu öryrkjar eru fjölmennir í hópi leigjenda, enda kjarastaða margra þeirra slík að þeir eiga fárra annarra kosta völ. Framkvæmdastjórn Öryrkjabandalagsins ítrekar því eindregna áskorun sína um að húsaleigubætur verði ekki skattlagðar svo tryggt sé að þær komi að sem allra bestu notum fyrir það tekjulága fólk sem þeirra á að njóta.``

Auðvitað er alveg sérstök ástæða til þess að nefna þessa ályktun öryrkjanna, ekki síst þar sem nú nýverið kom fram hve fjárhagsstaða margra öryrkja er erfið. Það birtist í því að helmingur þeirra sem leita til Hjálparstofnunar kirkjunnar eru öryrkjar. Maður spyr: Er það virkilega svo að ríkissjóður eigi að finna matarholu í vasa öryrkjanna í gegnum skattlagningu á húsaleigubótum?

[13:45]

Ég minntist þess áðan að Sjálfstfl. hefði verið tregur í taumi varðandi húsaleigubætur og skattlagningu þeirra. Í tíð minni sem félmrh. þegar húsaleigubótum var komið á voru miklar deilur uppi milli mín og þáv. fjmrh. um skattlagningu húsaleigubóta, þar sem ég óskaði eindregið eftir því að þær yrðu skattfrjálsar með líkum hætti og vaxtabætur. Niðurstaðan þá varð sú að hækka húsaleigubæturnar sem áformaðar voru sem samsvaraði því sem skattlagningin væri. Þannig að raunverulega voru bæturnar hækkaðar sem samsvaraði skattlagningu áður en það var lagt fram á þingi frá því sem áformað var. Þetta var málamiðlun á þeim tíma og ég taldi vera skref í áttina og þess virði jafnvel þó frv. væri með þeim annmarka að reyna þó að koma því í gegnum þingið. Enda kom það sér mjög vel að hækka frekar bæturnar þá því eins og kom fram í mínu máli áðan er stór hópur þeirra sem fá húsaleigubætur undir skattfrelsismörkum þannig að sá hópur græddi á þeirri útfærslu.

En nú er, herra forseti, umhverfið orðið nokkuð annað en þegar húsaleigubótum var komið á í árslok 1994--1995. Nú er það þannig að félagslega húsnæðiskerfinu hefur verið breytt og húsaleigubætur koma nú í stað niðurgreiðslna á leiguíbúðum sveitarfélaga og í stað þeirra niðurgreiðslna sem hafa verið á félagslegum íbúðum. Þetta þýðir að stærri hluti tekna láglaunafólks fer í húsnæðiskostnað en áður þannig að staða þess er miklu erfiðari eftir þá breytingu sem gerð var á húsnæðislöggjöfinni á síðasta þingi og raunverulega enn meira en áður sem knýr á um það, herra forseti, að þessi lagabreyting nái fram að ganga.

Við fórum einmitt í gegnum það þegar hæstv. félmrh. kom með frv. sitt um húsaleigubætur hvað skattlagningin þýddi í útgjöldum hjá þeim hópum sem verst hafa það í þjóðfélaginu. Þá voru nefnd raunveruleg dæmi af fólki t.d. með árstekjur um 700 þúsund. Svo ég taki af handahófi eitthvað af þessum dæmum, þá var um að ræða einstætt foreldri sem þurfti að borga 5.300 kr. í skatt á mánuði af þeim 12.900 kr. sem þetta einstæða foreldri fékk í húsaleigubætur. Eftir skatt stóðu um 7.600 kr. Þannig er fjöldi dæma af fólki með kannski tekjur upp á 700 þús. til 1 millj. kr., sem hefur fengið 12--15 þús. kr. í húsleigubætur á mánuði, og fólk vissulega munar um, sem borgar kannski 20--30 þús. kr. í leigu á mánuði, að tekið er af því kannski um 40% aftur, 5, 6, 7 þús. kr. Um það höfum við mörg raunveruleg dæmi sem Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar lagði fram þegar stofnunin var að sýna fram á nauðsyn þess að húsaleigubætur yrðu skattfrjálsar.

Og það er ekki nóg með að skattlagning húsaleigubóta virki með þessum hætti, að 40% af húsaleigubótunum, tekjunum af húsaleigubótum þarf að skila aftur í ríkissjóð heldur kemur þetta líka niður á skerðingu á barnabótum. Þetta getur leitt til þess að barnabætur skerðist hjá fólki sem er kannski með tvö til þrjú börn. Það kemur til viðbótar skattlagningunni, herra forseti. Við sjáum það núna t.d. í fjárlagafrv. að þar er gert ráð fyrir að úr útgjöldum ríkissjóðs dragi vegna barnabóta á næsta ári um 500 millj. kr.

Við erum alls ekkert að tala um einhverjar himinháar fjárhæðir ef Alþingi samþykkir þetta frv. sem ég mæli hér fyrir. Vaxtabæturnar eru sennilega að nálgast núna 4 milljarða í útgjöldum hjá ríkissjóði, sem ekki eru skattlagðar, og ekki er ég að mæla með því að vaxtabætur verði skattlagðar. En þetta eru 4 milljarðar í útgjöld sem ekki eru skattlagðir, þ.e. vaxtabæturnar. En þegar kemur að húsaleigubótum, sem eru kannski --- voru í fyrra um 300 millj., þó þær eigi örugglega eftir að vaxa, sem er tífalt lægri fjárhæð en vaxtabæturnar, þá er talin ástæða til, herra forseti, að skattleggja þær. Og við erum þó að tala um hóp, herra forseti, sem er mun verr staddur í þjóðfélaginu en þeir sem fá vaxtabætur og eiga sínar íbúðir. Við erum að tala um þann hóp sem nokkuð hefur verið rætt um í þjóðfélaginu, öryrkja, sem sumir hverjir eiga varla til hnífs eða skeiðar út mánuðinn. Á þennan hóp er ráðist með skattlagningu á húsaleigubótunum.

Herra forseti. Þó að þetta hafi vissulega verið slæmt í upphafi, eins og ég nefndi áðan, þegar húsaleigubótunum var komið á, þá er ég sannfærð um að þær breytingar sem voru gerðar á húsnæðislöggjöfinni og félagslega kerfinu á síðasta þingi muni auka verulega útgjöld húsaleigubóta sem nú eru komin til sveitarfélaganna. Uppgjörið milli ríkis og sveitarfélaga að því er varðar húsaleigubætur var það að ríkið lætur sveitarfélögin hafa 280 millj. á ári sem fer í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. En við höfum haldið því fram, og ég hef þar m.a. stuðst við útreikninga Þjóðhagsstofnunar, að breytingin sem gerð var á síðasta þingi þegar hætt verður niðurgreiðslu á félagslegum íbúðum og leiguíbúðum, gæti þýtt að útgjöld sveitarfélaganna yrðu 500--600 milljónir.

Stærri hluti framfærslunnar fer því í húsnæðiskostnað hjá þeim sem eru á leigumarkaðnum en áður var þegar húsnæðisaðstoðin birtist í formi niðurgreiðslu, bæði niðurgreiðslu á félagslegum íbúðum og niðurgreiðslu á kostnaði eða húsnæðiskostnaði í leiguíbúðum sveitarfélaga. Vegna þess að sveitarfélögin greiddu jú niður húsnæðiskostnaðinn hjá þeim sem voru í leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga, kannski um nálægt helming, sem nú er stefnt að að hætta þannig að fólk þarf að fullu að greiða raunkostnað við húsnæðisaðstoðina á leigumarkaðnum en fær þess í stað húsaleigubætur sem eru skattlagðar. Við erum því að tala um það, herra forseti, að með þeirri breytingu og með skattlagningu húsaleigubóta erum við að auka verulega framfærslukostnað þeirra sem verst hafa það í þjóðfélaginu.

Ég hef látið reikna út, og þá var það miðað við sl. ár, að samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra námu greiðslur húsaleigubóta á síðasta ári 321 millj. kr. Og að teknu tilliti til þess að margir geta nýtt persónuafslátt sinn til greiðslu á skatti af húsaleigubótum má ætla að tekjutap ríkissjóðs verði um 100 millj. kr. á ári nái frv. fram að ganga. Þetta eru ekkert voðalega stórar fjárhæðir fyrir ríkissjóð sem hafði í tekjuauka á þessu ári og næsta 25 milljarða kr. En þetta munar gífurlega miklu fyrir þann stóra hóp í útgjöldum sem verst er staddur í þjóðfélaginu og þarf að taka á sig þessa skattlagningu.

Ég held að við verðum að fara að horfa til þess, eins og fram kom í einu dagblaðanna fyrir tveim eða þrem dögum, að þriðja þjóðin er að verða til í okkar ágæta landi, sem þessi hæstv. ríkisstjórn virðist gjörsamlega hafa gleymt á kjörtímabilinu. Það eru öryrkjar, einstæðir foreldrar og fólk sem gert er að lifa á 50--70 þús. kr. á mánuði. Það eru aldraðir, öryrkjar og einstæðir foreldrar. Þetta er að verða þriðja þjóðin í þjóðfélaginu. Og það þarf endilega, herra forseti, að skattleggja húsnæðisaðstoðina sem þessum hópi er veitt um 40%. Taka aftur 7--8 þús. kr. af þeim 12--15 þús. kr. sem þetta fólk fær í húsnæðisaðstoð.

Ég held að allir hljóti að sjá alveg eins og nefnd félmrh. á sínum tíma komst að raun um, að þetta er gróft brot og gróf mismunun. Gróft brot á þeirri grundvallarreglu skattaréttar, jafnræðisreglu, að skattleggja húsaleigubætur á sama tíma og vaxtabætur eru skattfrjálsar. Og það er auðvitað ekkert annað en sjálfsagt mál, herra forseti, að breið samstaða náist um það á hv. Alþingi milli stjórnar og stjórnarandstöðu, sem stendur að þessu frv., að leiðrétta nú það óréttlæti sem hér er á ferðinni.

Við erum líka að lesa það, herra forseti, varðandi þennan hóp sem ég hef verið að tala um, öryrkjana, að nú standi til að taka félagslega öryrkja, eins og það er orðað, úr tryggingakerfinu. Því er hér með ósvífnum hætti haldið fram að þeir sem eru svokallaðir félagslegir öryrkjar, sé útsmogið fólk sem sé að svíkja peninga út úr tryggingakerfinu. Og það er sagt að hér sé verið að smíða frv. á vegum heilbrrh. sem gæti leitt til þess að hundruð ef ekki þúsundir öryrkja, sem hafa núna framfærslu af örorkulífeyri, verði settir út úr tryggingakerfinu. Þetta er sami hópur og ég er að tala um hér, sem er verið að skattleggja hvað varðar húsaleigubæturnar.

Ég nefndi að þetta kostaði ríkissjóð 100 millj. Við höfum fundið tekjur til að mæta þessu ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að standa að því að afnema skattlagningu á húsaleigubótum nema við finnum tekjur á móti. Við höfum fundið þær tekjur. Það liggur fyrir annað frv. frá mér og hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um að laxveiðileyfi skuli nú skattlögð, sem hafa verið undanþegin virðisaukaskatti. Þar fáum við 75--100 millj. af þeim sem hafa efni á að fara í laxveiðar, sem er nú yfirleitt efnaðasti hluti þjóðarinnar og sleppur við skattlagningu á laxveiðileyfum. Við getum tekið peningana af þeim þannig að húsaleigubætur geti orðið án skattlagningar án þess að ríkissjóður tapi tekjum.

[14:00]

Herra forseti. Enn og aftur vil ég vitna til þess að við erum að tala um mjög tekjulága hópa. Hér liggur fyrir frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur yfirlit yfir þá sem fengu húsaleigubætur 1996 og fjórðungur þeirra er með 700 þús. kr. eða minna í tekjur. (Gripið fram í: Á ári.) Á ári. Ekki myndi ég treysta mér til að lifa af 700 þús. kr. á ári og ekki hv. þm. Pétur Blöndal sem hér hefur beðið um orðið. (Gripið fram í.) Ég get ekki ímyndað mér að hann treysti sér til að lifa af því. Og 50 þús. eru með á bilinu 700 þús. til 1 millj. kr. Við erum sem sagt að tala um sem sagt einstæða foreldra, öryrkja, lífeyrisþega, aldraða o.s.frv.

Það er raunverulega svo þó staða þessa hóps sé slæm í dag að hún á enn eftir að versna fyrir tilverknað þessarar ríkisstjórnar. Það munum við sjá á næstu vikum og mánuðum þegar áhrifin af þeim lögum sem samþykkt voru á vorþingi um breytingar á félagslega húsnæðiskerfinu koma fram. Við fórum yfir það í vor að með þeirri lagabreytingu er verið að úthýsa hundruðum af tekjulægsta fólkinu úr húsnæðiskerfi þjóðarinnar. Hæstv. ráðherra sagði að því yrði mætt með leiguíbúðum. Við höfum afraksturinn á fjárlögunum núna, þ.e. hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera til að bæta þessum hópi það sem gert var á hans hlut, vil ég bara segja, með þeirri breytingu sem var gerð á húsnæðislöggjöfinni. Það eru 120 leiguíbúðir á næsta ári fyrir 600 fjölskyldur sem eru þegar á biðlista hjá Reykjavíkurborg og sennilega annan eins hóp sem bætist við sem afleiðing af húsnæðisfrv. ráðherrans. Það eru 120 íbúðir. Þetta eru töluvert færri íbúðir en hægt var að veita á tímum þegar við bjuggum ekki við það góðæri sem við búum þó við núna því að á árunum 1990--1992, svo ég taki dæmi, var veitt lán bara til félagasamtaka einna og sér, 169 leiguíbúðir á árinu 1990, 130 leiguíbúðir á árinu 1991, 165 leiguíbúðir á árinu 1992. Það var bara til félagasamtaka. En þessar 120 leiguíbúðir eiga bæði að nægja félagasamtökum og þeirri þörf sem er hjá sveitarfélögunum og mun skapast vegna þessarar lagabreytingar. Einmitt á þeim árum voru yfir 500 íbúðir og allt upp í 800 veittar til að mæta þörfum lægstlaunaða fólksins. Ég held því að það umhverfi sem við erum í núna kalli á það, herra forseti, að menn skoði það mál af fullri alvöru sem ég mæli fyrir. Ég er sannfærð um að þegar menn meta þetta mál og skoða hug sinn í þessu efni, að hér er ríkisvaldið með húsaleigubótum að aðstoða lægstlaunaða fólkið með sama hætti og það gerir með vaxtabótum til þeirra sem eiga sitt húsnæði, þá munu menn sjá að ekkert réttlæti er í því að skattleggja húsaleigubæturnar en ekki vaxtabæturnar. Þarna á að ríkja jafnræði, herra forseti, og það er hrein skömm vil ég bara segja, herra forseti, að ríkissjóður skuli sjá ástæðu til að skattleggja fólk sem býr við 50 til 70 þús. kr. á ári með þessum sérstaka hætti sem hér er gert að því er varðar húsaleigubæturnar.

Ég sé að tíma mínum er lokið og ég skal þá láta mínu máli lokið. Ég hefði helst kosið að þessum frv. yrði vísað til félmn. Ég geri mér grein fyrir að það getur verið álitamál að þau ættu fremur að fara til efh.- og viðskn. og læt ég það á vald forseta að skoða það mál. En ósk mín er sú að þessi mál gangi til félmn. og 2. umr.