Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:05:26 (231)

1998-10-08 14:05:26# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Umræður um húsaleigubætur hafa staðið nokkuð lengi yfir eins og eðlilegt er því að hér er um mikilvægt réttindamál að ræða. Það er ótrúlega stutt síðan lög voru sett um húsaleigubætur á Íslandi. Í öllum þróuðum velferðarþjóðfélögum í kringum okkur, sem við berum okkur saman við, hafa verið greiddar húsaleigubætur í marga áratugi. Það hefur tekið ótrúlega langan tíma að nudda þessu máli áfram hér á landi. Ég man eftir mörgum atlögum að þessu máli, m.a. af hálfu ríkisstjórna sem hafa lagt af stað með þetta mál og verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum. Ég man eftir því við myndun ríkisstjórnar haustið 1989 að þetta mál var tekið sérstaklega á dagskrá að kröfu Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur sem er ágætt að minnast og nefna sérstaklega í tengslum við þetta mál en hún var hér skamman tíma alþingismaður eins og kunnugt er og einn af leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar. Það var síðan, að ég hygg, í tíð síðustu ríkisstjórnar og þá undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. þáv. félmrh., að lög voru sett um húsaleigubætur og það var mikið fagnaðarefni þótt margir væru þeirrar skoðunar að þau lög væru mjög gölluð, m.a. var ég þeirrar skoðunar, vegna þess að þetta var ekki almenn skylda þá heldur var um það að ræða að einstök sveitarfélög urðu að gera það upp við sig. Engu að síður var þetta gríðarlega mikilvægt skref og á þeim tíma studdum við alþýðubandalagsmenn þetta. Ég tel að múrinn hafi verið brotinn með þessari ákvörðun þótt hún væri ekki að öllu leyti gallalaus, ekki heldur að mati þess hæstv. ráðherra sem þá bar málið fram. Þess vegna er eðlilegt að þetta mál komi hér upp eins og það gerir hér, sem næsta skref, sem sé það að skattkerfið meti vaxtabætur vegna kaupa á húsnæði og húsaleigubætur á sama hátt. Það er rökrétt og það er eðlilegt og í raun er annað ósanngjarnt en þetta sé hlutlaust, að skattalögin séu hlutlaus gagnvart því formi íbúða sem fólk kann að velja sér. Nú er það ekki þannig. Staðreyndin er sú eins og húsaleigumarkaðurinn er í dag að hann er svo erfiður hér á þéttbýlissvæðinu að það má heita algerlega vonlaust mál að leigja og svo að segja allir séu reknir inn í eiginhúsnæðiskerfi jafnvel þótt það sé mjög erfitt fyrir fólk. Það er fjöldinn allur, ekki síst af ungu fólki, sem ég hef verið að fara með í gegnum þennan frumskóg á undanförnum vikum og mánuðum, sem kemst að þeirri niðurstöðu í vaxandi mæli að það verði að fara inn í eigið húsnæði. Jafnvel þótt það eigi ekkert eigið fé sé það skárra en okrið á leigumarkaðnum eins og það er í Reykjavík í dag. Leigumarkaðurinn hérna er hrikalega erfiður og ég hygg að fara þurfi marga áratugi aftur í tímann til að finna jafnerfiðan leigumarkað í Reykjavík og nú er. Þess vegna er þetta mál nákvæmlega á réttum stað og verður vonandi vel tekið þótt ég verði að segja eins og er að ég óttast að þeir stjórnarliðar sem hér eru í salnum --- þótt ástæða sé til að þakka þeim fyrir að vera hér og vafalaust taka þátt í umræðunni --- megi ekki við margnum og þeir muni ekki knýja félaga sína í stjórnarmeirihlutanum á flótta ásamt okkur hinum í þessu máli. Ég óttast með öðrum orðum að stjórnarflokkarnir muni ekki mikið gera með þetta mál nema það verði farið í einhvern sérstakan leiðangur út af því. Þó er þetta ódýrt. Hér er réttlætismál á ferðinni og mundi ná til mjög margra og er satt að segja alveg ótrúlega ódýrt. Mig minnir að hv. þm. hafi sagt að það kostaði í kringum 100 millj. kr. og það er ekki dýrt miðað við hvað er á ferðinni.

Ég tel reyndar að gera ætti mjög mikið átak í húsaleigumálum í landinu. Það sem nú er verið að vinna af hálfu ríkisstjórnarinnar er hins vegar algerlega þvert á móti þar sem bersýnilegt er að þeir efnaminni og húsnæðisaðstaða þeirra verður stöðugt verri. Fyrst og fremst er það vegna þess að búið er að afnema félagslega íbúðakerfið en í öðru lagi er það vegna þess að menn vilja ekki taka heildstætt á þeim málum sem heita húsnæðismál þeirra sem eiga ekki pening til að eignast íbúðir. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að senda það fólk út á guð og gaddinn. Hún hefur ekki viljað gera neitt til að koma til móts við vanda þeirra sem eru hraklegast settir í þessu landi og verða að hafa húsaskjól af því hér á Íslandi er kalt, a.m.k. á veturna og fólk verður að komast í húsnæði. Sú gamaldags afstaða að ætla sér að láta fólk bjargast svo að segja við illan leik við að tryggja sér húsnæði eins og er tíðkað hér enn þá, það liggur við að fólki sé ætlað að rífa upp jarðveg til að byggja sér hreysi eins og var hér á síðustu öld vegna þess að engin önnur úrræði eru til. Engin úrræði eru til fyrir það fólk sem hér var verið að tala um, þ.e. öryrkja og veikt fólk og aðra, láglaunafólk af ýmsu tagi, engin úrræði og sífellt er verið að gera stöðu þess verri sem er náttúrlega hrópandi í himininn á sama tíma og staðan er þannig að þjóðfélagið er að hirða líklega eina 20--30 milljarða í viðbótarhagvexti upp á hvert einasta ár núna ár eftir ár, þá er þessi úrslitaþáttur í tilveru þessa láglaunafólks í þessu landi látinn liggja. Það er alveg ótrúlegt að fólk skuli á sama tíma reyna að tala um að hér sé til velferðarkerfi vegna þess að velferðarkerfi í grannlöndum okkar er til af því að það nær til allra þátta, veikinda, menntunar, félagslegrar aðstoðar og húsnæðismála. Velferðarkerfi sem nær ekki yfir húsnæðismálin stendur ekki undir nafni. Þess vegna er það, herra forseti að það átak sem hér er gerð tillaga um, lítið skref í rétta átt, er svo sjálfsagt mál að það ætti ekki að þurfa að eyða í það mjög mörgum orðum. Við búum hins vegar í þessu þingi við þetta meirihlutaofríki þar sem aldrei er hlustað á það sem þingmenn stjórnarandstöðunnar leggja til, jafnvel þótt um sé að ræða almenn sanngirnismál sem sem allir, eða 99% landsmanna taka undir. Það verður að játa að maður óttast að þessi þörfu þingmál sem hér var mælt fyrir af hv. 13. þm. Reykv. verði látin liggja eins og önnur góð mál.

Ég tel að eitt brýnasta verkefnið í velferðarstefnu á Íslandi séu húsnæðimálin og húsaleigumálin og það eigi skoða eigi möguleika, bæði að því er varðar það að gera húsaleigubæturnar virkari en þær eru. Það á að skoða hvort hægt er að hvetja þá sem eiga húsnæði til að gera það að leiguhúsnæði í auknum mæli, m.a. með ráðstöfunum í skattamálum. Ég er sannfærður um og það vitum við reyndar öll sem þekkjum til í þessu kjördæmi sem við erum stödd í, að gífurlegur skortur er á leiguhúsnæði hér og það er beinlínis rangt að þjóðfélag seint á 20. öld skuli byggast upp á því að húsnæðiseigendur skuli svo að segja við þær aðstæður sem nú eru, vera dæmdir til þess að hafa láglaunafólk og þarfir þess að féþúfu í þessu efni. Það er algerlega ólíðandi. Þess vegna ætti að horfa á þetta sem heildstætt mál. Ég man eftir því í fyrra þegar verið var að eyðileggja félagslega húsnæðiskerfið að þá lýstum við því yfir mörg að þótt ríkisstjórnin hefði sitt fram á síðasta þingi þá áskildum við okkur allan rétt til að breyta því, bæði með kosningaúrslitunum og nýjum áherslum eftir næstu kosningar og ég endurtek þær yfirlýsingar hér. Ég tel það algerlega gefið mál að ef verkalýðshreyfingin í landinu stendur undir nafni hljóti hún að taka það upp sem eitt sitt stærsta mál í næstu kjarasamningum þegar þeir kjarasamningar, sem voru gerðir síðast og standa fram á næstu öld, verða loks lausir að menn setji á dagskrá kröfu um nýtt víðtækt félagslegt húsnæðiskerfi sem byggist bæði á eign og leigu.

Að öðru leyti þakka ég hv. 1. flm. fyrir frumkvæði hennar og þá framsöguræðu sem hún hér flutti.