Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:16:47 (233)

1998-10-08 14:16:47# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir einkar uppbyggilegt andsvar við ræðu minni. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hafi í raun lítið gert til þess að bæta efnahagsástandið í landinu. Ég tel að sú hækkun á sjávarafurðum sem hefur orðið um 20% frá miðju árinu 1997 til miðs árs 1998 sé ekki henni að þakka. Það væri fróðlegt ef hv. þm. gæti rökstutt að það væri ríkisstjórninni að þakka að sjávarafurðir hafa hækkað í verði um 20%. Það gerir 20 milljarða í útflutningstekjur, það munar ansi mikið um það. En hvernig er það ríkisstjórninni að þakka? Það væri fróðlegt að fara yfir það ef hv. þm., sem er nú góður í reikningi og örugglega betri en ég, sýndi okkur fram á það.

Í öðru lagi vildi ég fá um það upplýsingar frá hv. þm. hvernig það er ríkisstjórninni að þakka að olíuverð hefur lækkað svo mikið að verð á tunnu er komið niður fyrir það sem það var fyrir aðra olíukreppuna 1978. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um að hvaða leyti þetta sé ríkisstjórninni beinlínis að þakka.

Ég held að þegar sá mikli hagvöxtur sem hér hefur verið er skoðaður af sanngirni sjái menn að ríkisstjórnin hefur sáralítið með þetta að gera. Auðvitað geta menn sagt: Ríkisstjórnin hefur gert margt gott. Ég ætla út af fyrir sig ekkert að neita því. En það er barnaleg pólitísk uppsetning mála og ekki við hæfi í þróuðu og upplýstu lýðræðisþjóðfélagi að menn setji hlutina upp eins og hv. þm. gerði, að það sé allt saman ríkisstjórninni að þakka hvernig hagvöxturinn hefur verið hér.

Hitt er aftur á móti alveg ljóst að það er ríkisstjórninni að kenna að hún hefur ekki tekið á kjörum aldraðra og öryrkja og þeirra sem búa við lélegt húsnæði á undanförnum árum heldur þvert á móti. Það hefur ekki eyrir af hagvextinum farið aukalega til þessa fólks. Forgangsröðin er óbreytt. Þeir sem höfðu mest hafa enn þá meira og þeir sem höfðu minnst hafa líka lítið vegna þess að ekkert hefur verið gert sérstaklega til að koma til móts við þetta fólk. Það er ríkisstjórninni en kenna en hitt er ekki henni að þakka.