Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:42:50 (241)

1998-10-08 14:42:50# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið um þessi frv. um að húsaleigubætur verði skattfrjálsar og þær undirtektir sem það hefur fengið að þessi frv. nái hér fram að ganga.

Ég gat ekki skilið hv. þm. Pétur Blöndal á annan veg en þann að hann hefði vissan skilning á því að skattalögin væru hlutlaus gagnvart húsnæðiskostnaði þó að hann eyddi mestu af sínum tíma í að ræða um það að námsmenn, einstæðir foreldrar, öryrkjar og ellilífeyrisþegar væru oftryggðir hjá ríkisvaldinu. Það var út af fyrir sig skringileg ræða en maður hefur heyrt hana áður.

Ég hef sjaldan heyrt hv. þm. Pétur Blöndal býsnast yfir t.d. fjármagnseigendum sem hafa það gott í þessu þjóðfélagi og ríkisstjórnin hefur fitað verulega á kjörtímabilinu. Hefur hv. þm. ekkert við það að athuga og gerði hann athugasemd við það þegar með fjármagnstekjuskattinum var opnað fyrir það að þeir sem ættu fjármagnstekjur og fengju arð gætu flutt launatekjur yfir í arðinn og greitt þá 10% af því í staðinn fyrir að greiða 40% af launatekjum? Ég man ekki eftir að hafa heyrt hv. þm. mótmæla því. Þar er þó verið að minnka skatttekjur þeirra sem raunverulega eiga peningana í þjóðfélaginu. Hér erum við að tala um skattlagningu á þeim sem eru verst settir.

[14:45]

Hv. þm. ræddi mikið um að ýmsir hópar í þjóðfélaginu væru oftryggðir. Það er af því að atvinnulífið er að verulegu leyti og hefur verið á framfæri hins opinbera. Þegar ég segi framfæri hins opinbera er ég að tala um það að stórum hluta þjóðarinnar er borgað kannski innan við 100 þús. kr. í tekjur. Fólk þarf að lifa af 70 þús. kr. sem atvinnulífið greiðir því og þá þarf ríkið að koma þar til móts til að fólk eigi fyrir salti í grautinn, herra forseti. Þess vegna fer töluvert af útgjöldum hjá ríkinu í bætur. Ég er viss um að fólk sem er gert að fá í launatekjur kannski 70 þús. kr. vildi miklu frekar taka það sem þyrfti til framfærslu úr launaumslaginu en í gegnum skattkerfið eða bæturnar. Þetta er bara einu sinni íslenskt samfélag sem við búum í. Það er viðurkennt, herra forseti, að framfærslukostnaður fjögurra manna fjölskyldu er varla undir 200 þús. kr. á mánuði.

Hv. þm. nefndi ýmis dæmi af námsmönnum og einstæðum foreldrum sem hann taldi oftryggða. Ég heyrði hann þó aldrei fara upp í þessar 200 þús. kr. sem er viðurkennt að sé framfærsluþörf venjulegrar fjölskyldu. Ég held ekki að margir taki undir með hv. þm. að námsmenn í þjóðfélaginu séu eitthvað of sælir af því sem þeim er gert að lifa af meðan þeir eru í námi. Hv. þm. Pétur Blöndal fyllir kannski einhvern hóp með sjálfstæðismönnum sem hafa þessa skoðun. En það er einmitt í gegnum ýmsa aðstoð sem við höfum verið með t.d. í félagslega kerfinu fyrir námsmenn, lága vexti og nú húsaleigubætur sem hefur auðveldað námsmönnum framfærsluna.

Hv. þm. nefndi að það ætti að gera vel við barnafólk en þegar við erum að skattleggja húsaleigubætur erum við að skerða barnabætur hjá ýmsum vegna þess að skattlagningin á húsaleigubótum skerðir barnabæturnar. Ég tel að ræða hv. þm. hafi ekki breytt neinu um það að frv. sem við ræðum hér á fullan rétt á sér og fannst mér nú koma fram ákveðinn skilningur hjá hv. þm. þar að lútandi.

Hv. þm. Svavar Gestsson, 8. þm. Reykv., hélt ágæta ræðu. Vissulega er hægt að deila með hv. þm. áhyggjum yfir því hvernig leigumarkaðurinn er núna að þróast vegna þess að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í á sl. ári varðandi félagslega húsnæðiskerfið mun færa upp leiguna vegna þess að fleiri þurfa að fara á leigumarkaðinn og eftirspurnin mun aukast. Ég sé engin sérstök merki þess að framboð muni aukast á leiguhúsnæði. Hv. þm. taldi enga ástæðu til þess að nefna þá leigu sem þessir hópar, einstæðir og öryrkjar og námsmenn, þurfa kannski að borga sem er iðulega 35--40 þús. kr. og ekki er óalgengt að þeir sem lægstar hafa tekjurnar og minnstar hafa bæturnar borgi helminginn, stundum upp í 3/4 af tekjum sínum upp í húsnæðiskostnað. Ég er alveg viss um að það er stór hópur öryrkja sem þarf að tína upp úr umslagi sínu um hver mánaðamót helming af því sem hann hefur í tekjur eða lífeyri til þess að greiða í leigukostnað. En hv. þm. sá enga ástæðu til að nefna að leigan væri há.

Það sjá náttúrlega allir ef við tökum t.d. húsnæðiskerfið til samanburðar að þá er talið að greiðslubyrði á mánuði af lánum megi raunverulega ekki fara upp fyrir 20% af tekjum viðkomandi til þess að hann ráði sæmilega við það þannig að viðkomandi eigi 80% eftir þegar hann er búinn að borga húsnæðiskostnaðinn. En hvað þurfa öryrkjarnir að borga, einstæðu foreldrarnir og námsmennirnir oft og tíðum af framfærslupeningum sínum, tekjum sínum? 50% í leigu og menn ræða um að greiðslubyrði húsnæðislána megi alls ekki fara yfir 20% vegna þess að þá fari heimilin á hausinn. En það er ekki oft sem ég heyri það t.d. úr munni þessa hv. þm. sem talaði um oftryggingu öryrkja, námsmanna og einstæðra foreldra að hann hafi reiknað út hvað það þýðir fyrir útgjöld og pyngju þessara láglaunahópa þegar 50% af framfærslutekjum þeirra, bótum eða tekjum, fer beint í húsaleigu. Ég held að ekki þurfi hagfræðing til að sjá það að endar hjá slíkri fjölskyldu ná ekki saman yfir mánuðinn. Það þarf engan hagfræðing til að sjá það. Það sjá auðvitað allir að fyrri hluta mánaðarins er þetta fólk búið með það sem það hefur sér til framfærslu hvort sem það er gegnum launatekjur eða lífeyri. Það er til skammar, herra forseti, hvernig þetta þjóðfélag sem telur sig vera velferðarþjóðfélag, telur sig vera í uppgangi og vera á tímum góðæris með 100 milljarða. 100 milljarða hefur þessi ríkisstjórn haft úr að spila á þessu kjörtímabili umfram það sem síðasta ríkisstjórn hafði, og samt höfum við aldrei heyrt eins og nú hvað öryrkjar hafa það slæmt. Ég man ekki einu sinni eftir að hafa heyrt það á þeim tímum sem við sigldum í gegnum þegar jafnaðarmenn voru mikið í ríkisstjórn þar sem við bjuggum við tímakreppu og samdrátt í efnahags- og atvinnulífi. Ég er viss um að öryrkjarnir núna í þjóðfélaginu hafa það verr en þeir höfðu það þá. Þá bjuggu þeir líka við það að örorkulífeyririnn var nálægt lágmarkstekjum þannig að mér finnst að hv. þm. eigi að fara varlega í að tala um oftryggingu hjá þessum hópum.

Ég vona, herra forseti, að þetta frv. fái framgang á þessu þingi. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það er með ólíkindum að ekki eru nema kannski fjögur ár síðan teknar voru upp húsaleigubætur hér á landi en húsaleigubætur hafa tíðkast í gegnum ár og áratugi t.d. á hinum Norðurlöndunum og þeim dettur ekki í hug að skattleggja þær eins og hér er gert. Það skulu vera lokaorð mín að ég vil líka taka undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að náist þetta frv. ekki fram á þessu þingi, sem maður verður að leyfa sér að vona, sem verulega mun bæta stöðu þeirra hópa sem ég hef nefnt hér, hlýtur það að verða fyrsta verk jafnaðarmanna, félagshyggjufólks og kvenfrelsissinna þegar það tekur við stjórnartaumunum, vonandi eftir næstu kosningar, að breyta því ástandi sem er í húsnæðismálum þeirra sem þurfa að vera á leigumarkaðnum og afnema það að þessir hópar þurfi að greiða skatta af litlum húsaleigubótum, að hirða þurfi 40% í skatt af 15 þús. kr. sem það fær í húsaleigubætur. Það hlýtur að verða fyrsta verk slíkrar ríkisstjórnar að endurreisa á ný félagslega aðstoð í húsnæðismálum á Íslandi sem er eitt af þeim verkum sem er þessari ríkisstjórn til skammar og hennar verður lengi minnst fyrir, þ.e. að afnema félagslega aðstoð í húsnæðismálum fyrir lægstlaunaða fólkið á Íslandi.