Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:55:18 (242)

1998-10-08 14:55:18# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að notfæra mér andmælarétt minn til að benda á umfjöllun í Degi í gær. Þetta er fréttaskýring: Öryrkjar eru þriðja þjóðin. Ég held að það væri gott fyrir ýmsa sem hafa verið að tala gegn þessu frv. eða nánast ekki tekið undir það að lesa hana en hún sýnir fram á við hvað þessir öryrkjar búa sem hv. þm. hafa verið að ræða. Rætt er við ungan mann sem greindist með MS-sjúkdóm og hann lýsir því hér. Hann fær fulla tekjutryggingu og fullar bætur og hann er með 63 þús. kr. á mánuði. Það er eins hátt og hægt er að komast í almannatryggingakerfinu. Þar af fer helmingurinn í húsaleigu, hann á 31 þús. kr. eftir. Hann er fráskilinn og hann á börn. Hann getur ekki leyft sér að bjóða börnunum sínum upp á neitt. Fólk sem þarf að lifa af 31 þús. kr. getur ekki leyft sér nokkurn skapaðan hlut. Í Degi segir, með leyfi forseta:

,,Eiríkur rifjar upp bíóferð með öðrum sona sinna. ,,Eftir bíóferðina vildi ég fá að bjóða honum upp á hamborgara á MacDonalds sem kostar 490 kr. Ertu að grínast pabbi, var svar hans. Svona lagað fær á mann; það er ekki búist við neinu af manni. Enda getur maður ósköp lítið veitt sér og sínum.````

Svona er nú staðan hjá þessu fólki og ég vildi bara bæta þessu inn í og ég teldi hollt fyrir ýmsa stjórnarliða að lesa þessa fréttaskýringu Friðriks Þórs Guðmundssonar í Degi í gær því að hún lýsir því alveg í hnotskurn hver kjör öryrkja eru og hversu stór hluti tekna þeirra ef þeir eiga ekki íbúð fer í að borga húsaleigu og hvað eftir er í góðæri Davíðs Oddssonar og Péturs Blöndals.