Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:57:47 (243)

1998-10-08 14:57:47# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. var að tala um fjármagnstekjuskatt út úr heiðskíru lofti og ég vil benda honum á, sem ég hef gert mörgum sinnum, að sá sem ætlar að flytja tekjur í gegnum arð þarf að borga 30% af hagnaði fyrirtækisins, fyrst sem skatt og síðan borgar hann 10% fjármagnstekjuskatt þannig að hann tapar á því.

Í öðru lagi sagði hv. þm. að ég hefði sagt að ellilífeyrisþegar og öryrkjar hefðu það gott. Það sagði ég aldrei. Ég gat um einstök dæmi þess að fólk væri oftryggt í kerfinu, einstök dæmi. Og hann sagði líka að ég hefði sagt að námsmenn hefðu það allir gott. Það sagði ég ekki. Ég tók sem dæmi einstæða móður með tvö börn sem stundar nám. Hún er oftryggð en ég sagði alls ekki að allir námsmenn væru oftryggðir, aldrei nokkurn tíma. Það fyrir finnst hvergi stafur í minni ræðu um það. (Gripið fram í: Þú ættir að lesa yfir ræðuna.)

Síðan sagði hv. þm. að ég talaði eingöngu um oftryggingu. Ég talaði líka um vantryggingu og það er veruleg vantrygging. Ég gat um hana sérstaklega og ég vildi gjarnan að hv. þm. kæmi inn á þau atriði þar sem ég talaði um vantryggingu. Þeir menn sem búa í litlum herbergjum, búa ekki nógu flott og fá ekki húsaleigubætur. Ég talaði líka um stóra fjölskyldu sem fær ekki húsaleigubætur af því að tekjurnar samanlagt fara yfir 220 þús. kr. Það er líka vantrygging þannig að ég vildi gjarnan að hv. þm. ræddi þetta. Ég talaði líka um vantryggingu þess manns sem er með engar tekjur og fær sömu húsaleigubætur og annar einstaklingur sem er með 120 þús. kr. á mánuði. (Gripið fram í: Hvað er oftrygging?) Oftrygging er þegar menn eru betur settir eftir tjón en þeir voru áður, það er oftrygging, herra forseti.

Ég hefði viljað að menn mistúlkuðu ekki svona ræðu mína og væru málefnalegir í umræðunni því að það gefur okkur miklu meira en vera að mistúlka og rangtúlka það sem maður segir.