Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:59:49 (244)

1998-10-08 14:59:49# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:59]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa stuttu ræðu hjá hv. þm. Ég hygg að síðasta ræða mín hafi haft einhver áhrif á hv. þm. þannig að hann hafi séð að kannski hafi hann verið að tala af sér þarna og sjái að sér og dragi í land. Ég gat ekki betur heyrt en hann --- þó hann nefndi einhver einstök dæmi um vantryggingu, þá gekk ræða hans út á oftryggingu sem hv. þm. sá ofsjónum yfir. Ég nefndi auðvitað dæmi sem mér finnst hv. þm. taka sjaldnar upp eins og varðandi fjármagnstekjuskattinn og skattaparadís fyrirtækja, sem hafa haft 100 milljarða í hagnað og greiða 16 milljarða í skatt vegna þess að það eru til svo mörg skattagöt og undankomuleiðir fyrir atvinnulífið í þessu þjóðfélagi, sem er raunverulega skattaparadís fyrir fyrirtækin og maður heyrir á boðskap ríkisstjórnarinnar að gera eigi að enn þá meiri skattaparadís en það eru auðvitað fyrst og fremst launamenn sem greiða skatt í ríkissjóð. Ég held að hv. þm. ætti að tala varlega þegar hann er að tala um að þessir hópar sem við höfum verið að fjalla um, námsmenn og öryrkjar, aldraðir og einstæðir foreldrar, hann nefndi alls ekki alla, að sumir hverjir væru oftryggðir vegna þess að ég held að hv. þm. fari ekki með rétt mál í því og ég held að hv. þm. þekki ekki --- miðað við hvernig hann talar --- raunverulega kjör þeirra sem verst eru staddir í þjóðfélaginu og hvernig þeir geta yfirleitt komist af miðað við þær tekjur, bætur og lífeyri sem þeim er skammtað í þessu þjóðfélagi.