Sjálfbær orkustefna

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 15:19:47 (247)

1998-10-08 15:19:47# 123. lþ. 6.6 fundur 12. mál: #A sjálfbær orkustefna# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[15:19]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti þessa tillögu á síðasta þingi ef ég man rétt þannig að hún er nú endurflutt og ... (HG: Hún var aldrei rædd.) var aldrei rædd á síðasta þingi en var eitthvað aðeins rædd í þeim þingflokki sem ég stýrði þá og hét þá þingflokkur Alþb. og óháðra og hv. þm. var þá hluti af.

Ég byrja á því að nota þetta tækifæri fyrst og fremst til að þakka hv. þm. fyrir þá gagnaöflun sem hann hefur beitt sér fyrir og birtist í þessu þskj. Hér er um að ræða óvenjulega fróðlegt yfirlit um raforkubúskap landsmanna og horfur í þeim efnum allt fram á næstu öld. Ég er þá að tala um hagnýtingarhorfurnar, ég er að tala um umhverfishorfurnar, bæði að því er varðar Kyoto-samkomulagið og fleiri þætti. Ég er að tala um þær ábendingar sem birtast þarna varðandi orkufrekan iðnað og einnig um raforkutilskipun Evrópusambandsins og síðast en ekki síst þetta stórmerkilega fylgiskjal frá Orkustofnun, dags. 13. febrúar 1998, um eldsneytisnotkun Íslendinga árið 1996. Það er mjög athyglisvert ef það er rétt sem hér er haldið fram að það sé orðið svo miðað við umhverfisaðstæður að hagnýtanleg orka vatnsafls og jarðvarma til raforkuframleiðslu hér á landi nemi ekki 50 teravattstundum heldur 25 teravattstundum og það er hrikaleg staðreynd ef það er þannig. Ég tel að það hvetji til þess að allar orkunýtingarforsendur verði skoðaðar upp á nýtt og endurmetnar. Það er augljóst mál að það er æðimikið annar heimur sem við mundum hrærast í ef við yrðum að setja þakið á við 25 teravattstundir til hagnýtingar í raforkuframleiðslu eða hvort við erum að tala um 50 teravattstundir eins og menn hafa yfirleitt reiknað með. Ég hygg að þeir menn sem hafa verið uppi með ákveðnar stóriðjuhugmyndir á undanförnum árum eins og núv. hæstv. ríkisstjórn hafi gengið út frá hinni háu tölu, 50 teravattstundum, og gengið út frá því að hægt væri að nýta svo mikla orku hér á landi og þar af leiðandi hægt að nota mjög mikið af henni til málmbræðslu, til stóriðju. Út af fyrir sig má segja ef menn eru með það sem járnmúraða niðurstöðu af sinni hálfu, stutt rökum fræðimanna, að til séu 50 teravattstundir, geti menn leyft sér dálítið kæruleysi með að nota þá hluti. Ef þetta er aftur á móti komið niður í 25 er beltið náttúrlega miklu þrengra utan um menn sem þeir þurfa að taka tillit til. Mér finnst gagnasöfnun hv. þm. og sú ræða sem hann flutti hvetja til þess að fyrirbæri eins og hv. iðnn. Alþingis láti fara fram sjálfstæða skoðun á þessu með því að láta kalla fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og alla aðra aðila þannig að þessir hlutir verði merktir upp á nýtt að frumkvæði Alþingis. Það er miklu eðlilegra að Alþingi geri það en allir aðrir af því fyrst og fremst að núv. ríkisstjórn og fyrri stjórnir hafa gjarnan verið uppteknar af því að þær þurfi að tryggja atvinnu eins og það heitir, og nú er farið að blanda þessum stóriðjumálum í uppbyggingu á landsbyggðinni eins og kunnugt er og hv. þm. þekkir úr kjördæmi sínu þar sem ákallið á uppbyggingu stóriðju er gríðarlega hávært.

Einnig er dálítið umhugsunarvert að ef þessi veruleiki horfir svona við eru þær tölur sem hv. þm. bendir á umhugsunarverðar að öðru leyti að um miðja næstu öld án viðbótarstóriðju verði um að ræða orkuþörf í þessu landi upp á 11,3 teravattstundir. Það bætist svo við ef menn ætla sér að útrýma innfluttu eldsneyti, sem getur verið út af fyrir sig ágætt markmið en má sjálfsagt líka ræða aðeins betur. Ég tel að það eigi þá fyrst og fremst að vera keppikefli af umhverfispólitískum ástæðum og heimsástæðum ef til þess að útrýma innfluttu eldsneyti þurfi 20 teravattstundir til viðbótar við þær 11,3 sem þarna var verið að tala um að þyrfti að nota um miðja næstu öld. Þá er komið að tíðindum sem hafa aldrei verið rædd úr þessum ræðustól, a.m.k. ekki um nokkurra áratuga skeið og það er að við Íslendingum gæti blasað orkuskortur þegar kemur fram á næstu öld og ég geri ráð fyrir því að einhverjir okkar muni falla einhvern tíma á þeim tíma. Engu að síður er ljóst að það verður þá viðfangsefni niðja okkar að takast á við algerlega nýjan veruleika, með öðrum orðum orkuskort í landinu miðað við það sem við höfum verið að tala um.

Hins vegar er auðvitað svo að það er náttúrlega líklegt að þegar kemur svo langt fram í tímann hafi skapast aðstæður til þess að flytja raforku milli landa, að við búum við allt aðrar aðstæður en við gerum í dag en ég tel að sú mynd sem hv. þm. dró hvetji mjög til umhugsunar. Ég hvet til þess að hv. iðnn. taki þessari tillögu vel og ég endurtek þakkir mínar fyrir þau gögn sem hv. þm. hefur dregið með sem fylgiskjöl þessa máls.