Sjálfbær orkustefna

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 15:25:57 (248)

1998-10-08 15:25:57# 123. lþ. 6.6 fundur 12. mál: #A sjálfbær orkustefna# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig tek ég undir það sem kom fram í lokaorðum hv. þm. Svavars Gestssonar, 8. þm. Reykv., að það er eðlilegt að Alþingi skoði vel þessa þáltill. og raunverulega efni tillögunnar og þær upplýsingar sem eru dregnar fram. Það er ekkert nema gott um það að segja og nauðsynlegt að þingið velti þessum stóru málum fyrir sér. Eins og við ræddum fyrr á þessum degi þegar við vorum að ræða um loftslagsbreytingarnar, gróðurhúsaáhrifin og Kyoto-bókunina svokölluðu, eru þetta allt mál sem tengjast og þarf að líta á í nokkru samhengi með því að við hugum að nýtingu orkulinda okkar sem er nauðsynlegt að gera.

Hér eru settar fram spár eða vangaveltur um það hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér annars vegar varðandi hugsanlega og mögulega nýtingu orku í landinu, hins vegar það sem þegar er búið að ákveða eða gefa fyrirheit um í sambandi við orkunýtingu og iðnaðaruppbyggingu en svo eru þar að auki upplýsingar um framtíðarmöguleikana og vetnisframleiðslu og nýja orkugjafa. Allt eru þetta mál sem við Íslendingar viljum gjarnan taka þátt í og vera eftir því sem við getum aðilar að slíkri nýrri orkustefnu, ef má orða það þannig, og eigum að leggja okkar af mörkum. Við eigum möguleika, við höfum ákveðna þekkingu, við höfum ákveðna reynslu af vetnisframleiðslu og við höfum verið að leita eftir samstarfi og samvinnu við ýmsa aðra aðila í þessu, t.d. bílaframleiðendur í sambandi við samgöngurnar. Auðvitað skiptir ekki litlu máli ef við gætum breytt eitthvað áherslum í sambandi við orkugjafa fiskiskipaflotans.

Hér er því velt upp ýmsum hugmyndum sem vert er að skoða og full ástæða til að við gerum. Enda er það svo að í megininntaki þáltill. er talað um að iðnrh. láti undirbúa í samvinnu við umhvrh. og þingflokka sjálfbæra íslenska orkustefnu. Mig langar í því sambandi að minna á að í framkvæmdaáætlun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi er m.a. fjallað um mjög hliðstæða hugmynd og hér er sett fram, í kaflanum um orku og iðnað í þeirri framkvæmdaáætlun sem ég er með hér og ég veit að hv. þm. kannast við. Auðvitað er fjallað um fjölmargt fleira sem getur tengst sjálfbærri þróun í samfélagi okkar og er ávöxtur af mikilli vinnu sem unnin var í starfshópum þar sem fulltrúar félagasamtaka, fyrirtækja, stofnana og ráðuneyta komu að. Eftir þá miklu vinnu var síðan haldið sérstakt umhverfisþing sem fór yfir það mikla efni sem lá fyrir. Svo að ég geri langa sögu stutta varð úr því þessi framkvæmdaáætlun til sem ríkisstjórnin hefur samþykkt. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Iðnrh. í samráði við umhvrh. láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árslok árið 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum auk ferðaþjónustu. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður felldar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.``

[15:30]

Hér er út af fyrir sig fjallað um nátengd efni.

Með tillögunni sem hér er til umræðu fylgir ítarleg greinargerð um hugmyndir flutningsmanna þar sem fram kemur rökstuðningur þeirra en í framkvæmdaáætluninni sem ég vitnaði til er líka margvíslegur rökstuðningur og margvíslegt efni til upplýsingar til þess að byggja undir þær hugmyndir sem hér eru settar fram um aðgerðir eða leiðir til að ná markmiðunum. Við höfum nú þegar átt nokkrar viðræður um þetta mál við iðnrh., þ.e. umhvrh. og iðnrh. ásamt embættismönnum og ráðuneytisstjórum þessara ráðuneyta, hvernig við stöndum að gerð þessarar langtímarammaáætlunar. Það er nauðsynlegt að sú vinna verði unnin á næstu missirum. Hér segir: ,,fyrir árslok árið 2000``, eins og ég gat um áðan. Það er fullur vilji til þess að vinna að því máli og ég hef lagt mig fram um það að reyna að koma þessu áleiðis. Við höfum rætt við undirstofnanir ráðuneytanna um að leggja efni til þessarar áætlunargerðar og vinnan er, ef ég má orða það svo, um það bil að fara af stað. Hún hefði auðvitað mátt vera komin af stað eða komin lengra. Þó er hægt að orða það svo að gerð þessarar áætlunar sé um það bil að fara af stað. Þetta vildi ég láta koma fram, hæstv. forseti, í umræðu um þessa tillögu.

Ég get eins og ég hef reyndar áður sagt og kom fram í umræðum í morgun um það dagskrármál sem þá var til umræðu, þ.e. um undirritun eða staðfestingu á Kyoto-bókuninni, verið sammála hv. 1. flm. og frsm. þessarar tillögu sem hér er til umræðu að ég held að hugmyndir manna fyrr á tímum um þá orku sem við eigum nýtanlega en óvirkjaða séu ofmetnar og það þurfi að endurskoða þá orkuspá eða orkustefnu. Þar á ég fyrst og fremst við að það eru mjög breyttar áherslur í umhverfismálum. Það er öllum þegnum þessa lands ljóst og hvort heldur er þeim sem sitja á Alþingi, í ríkisstjórn eða starfa í ráðuneytum hvað þessar áherslur hafa verið að breytast mikið á undanförnum missirum. Á tiltölulega skömmum tíma hefur þarna orðið mikil hugarfarsbreyting og stjórnvöld verða auðvitað að taka mið af því. Þess vegna er líka mjög nauðsynlegt að stjórnvöld setjist niður og semji þá stefnu eða áætlun og reyni að gera hana í sátt við sem flest, helst öll sjónarmið eftir því sem það er hægt, að við leitum allra leiða til þess að nýting orkunnar sé markviss og að við fórnum ekki ómetanlegum eða óbætanlegum verðmætum. Ég hef nefnt dæmi áður í umræðu til hvers mér fyndist að þyrfti t.d. að taka tillit í því efni. Dæmi um slíkt er margumrædd virkjun Jökulsár á Fjöllum með þeim afleiðingum að Dettifoss yrði ekki svipur hjá sjón, kannski ekki til. Ég mundi ekki telja það ásættanlegt, náttúrlega alls ekki fyrir umhverfisyfirvöld og raunar alls ekki fyrir stjórnvöld að sætta sig við slíka breytingu svo ég taki bara eitt dæmi af því sem ég held að þurfi að hafa í huga við mótun nýrrar stefnu.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er útrunninn. Að öðru leyti um spána eða framsetningu flutningsmanna og hv. frsm. vil ég ekki leggja neina dóma á þessu stigi en veit að nefnd fer yfir þetta og ræðir þá sjálfsagt bæði við fulltrúa iðnrn. og umhvrn.