Sjálfbær orkustefna

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 15:34:48 (249)

1998-10-08 15:34:48# 123. lþ. 6.6 fundur 12. mál: #A sjálfbær orkustefna# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. og um leið iðnrh. því að hæstv. umhvrh. er nú starfandi hæstv. iðnrh., fyrir innlegg í þessa umræðu og þau sjónarmið sem þar komu fram. Auk þess þakka ég hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir þátttöku í umræðunni og góðan stuðning við þá tillögu sem hér er til umræðu.

Um það sem fram kom hjá hæstv. umhvrh. er ekki annað að segja af minni hálfu en að mér þykir gott að heyra þau meginviðhorf sem hann viðraði í þessu efni og þann vilja sem þar kom fram, að tekið verði á þessu máli með langtímasjónarmið í huga og að sú stefnumótun eða framkvæmdaáætlun sem ríkisstjórnin stóð að að yrði mótuð, fellur með vissum hætti að þeim hugmyndum sem settar eru fram í þessari tillögu. Því er í rauninni ekki annað vænlegra og sjálfsagðara en að þingið leggi sitt af mörkum til þessa máls og inn í undirbúning að slíkri stefnumótun og það ætti að geta farið saman. Ég tel að það sé eitthvert allra brýnasta mál þessa þjóðfélags að slík stefna verði mótuð og um leið auðvitað að endurskoðuð verði sú vegferð sem menn hafa verið að undirbúa um alllangan tíma, miklu hraðari hagnýting á orkulindum okkar heldur en skynsamlegt er út frá sjónarmiðum umhverfisverndar og út frá þjóðhagslegum markmiðum að auki.

Ég vil aðeins nefna í því sambandi að ef við lítum á þær hugmyndir sem hafa fengið á sig einhverja mynd og verið kynntar landsmönnum í einu eða öðru formi varðandi stóriðjufyrirtæki og það stóriðjufyrirtæki sem kannski ætti að rísa að mati ríkisstjórnar á næsta áratug, næstu tíu árum eða svo, þá er þarna í fyrsta lagi umrædd risaálbræðsla á Austurlandi. Það má gjarnan nota risa- fyrir framan. Það mætti kannski nota hugtakið peta- sem er notað í útreikningum Orkustofnunar um innflutning á orku í því sambandi. Þakið á hugmyndina um risaálbræðsluna þar hefur verið sett við 720 þúsund tonna framleiðslu af áli á einu ári. Þessi hugmynd kallar á raforku sem nemur yfir 10 teravattstundum sem er fullur þriðjungur af tæknilega hagnýtanlegu vatnsafli í landinu. Þetta hefur verið dregið fram og komið fram í þingskjölum þannig að ég er ekki með neina ,,science fiction`` í þessu sambandi. Ég er ekki með neinn tilbúning í þeim efnum heldur er þetta mál sem menn hafa setið yfir og verið er að verja stórfé til, til þess að athuga í samvinnu við útlendinga.

Ef við tökum síðan stækkun á þeim álbræðslum sem fyrir eru í landinu þá nemur það verulegu magni sem svarar til nær þriggja teravattstunda að auki og magnesíumverksmiðja sem hefur verið rædd á þessum degi kallar á orku sem svarar til einnar teravattstundar þannig að í þessum fjórum hugmyndum, tveimur stækkunum á iðjuverum og tveimur nýjum iðjuverum erum við með orkumagn sem nemur um 14 teravattstundum. Það er nær helmingurinn af tæknilega virkjanlegu vatnsafli í þessu landi. En ég hef verið að reifa þá hugmynd okkar flutningsmanna að menn ættu að draga mörkin við 25 teravattstundir sem það hámark sem menn ættu að miða við í langtímaáætlun. Ég held að alveg nauðsynlegt sé að menn geri sér þetta ljóst og ég held að stjórnmálamenn og hv. alþingismenn sem fylgjast með þjóðmálaumræðunni verði að átta sig á hve viðkvæmt mál röskun á víðernum landsins, hálendi landsins og jarðhitasvæðum landsins, er orðið í huga þjóðarinnar. Hvar verðum við stödd hvað það snertir eftir að við værum búin að tvöfalda núverandi orkuvinnslu, þrefalda hana? Hvert verður ástandið þá í þjóðfélagsumræðunni um slíkar framkvæmdir? Er þá skynsamlegt að fara að binda stóran hluta af orkuforða landsins í málmbræðslum sem gera verður ráð fyrir að gangi í hálfa öld? Sumar hafa gengið lengur samkvæmt reynslu. Er það skynsamlegt? Ég segi nei. Það er ekkert óskynsamlegra varðandi ráðstöfun á orkulindum okkar heldur en einmitt það vegna þess að þá eru menn að loka á möguleika sem eru eðlileg keppikefli fyrir Íslendinga, þ.e. að geta orðið sjálfum sér sem mest nógir um orku úr sínum eigin orkulindum með því að útrýma jarðefnaeldsneytinu, skapa þar með aukið svigrúm gagnvart alþjóðasamningum sem við höfum rætt fyrr á þessum degi, auk þess að tryggja öryggi sitt og koma sér fyrir í landinu í góðri sátt við náttúruna. En ef við tökum hinn kostinn, ráðstöfum svona stórum hluta í málmbræðslur, bindum orkuna þar, þá stöndum við frammi fyrir þeirri viðkvæmu stöðu að þurfa að fara að taka kosti sem við vildum helst ekki nýta til ráðstöfunar til að framleiða vistvæna orku í landinu. Það er ekki skynsamleg staða, virðulegur forseti.

Aðeins vildi ég nefna, af því að mér gafst ekki tími til þess í fyrri ræðu minni, það sem kemur fram í tillögunni varðandi raforkutilskipun Evrópusambandsins. Ég ætla ekki að fara langt út í það efni en ég vildi samt vekja sérstaka athygli á því að Evrópusambandið samþykkti 1996 sérstaka tilskipun sem varðar Ísland sem aðila að hinu Evrópska efnahagssvæði og snertir innri markað á raforku, þ.e. að innleiða svokallaða frjálsa samkeppni í sambandi við framleiðslu og dreifingu á raforku. Það er lengi búið að vinna að þessu máli innan Evrópusambandsins og það er sem sagt orðið viðtekið að ráðast í slíkt á allnokkrum tíma í þrepum ef svo má segja. Hins vegar er málið ekki farið í gegn í sameiginlegu EES-nefndinni. Ísland hefur sett fram spurningarmerki í sambandi við þetta stóra mál og það er mjög eðlilegt og réttmætt að það hafi verið gert. Ég tel að við eigum ekki, a.m.k. ekki á meðan við höfum ekki lokið því bráðnauðsynlega verki að átta okkur á okkar hagsmunum betur en orðið er og móta hér orkustefnu til lengri tíma, að gerast aðilar að þessari tilskipun Evrópusambandsins. Og ég skora á íslensk stjórnvöld að spyrna þarna við fótum og færa fram mjög skýr og eðlileg rök fyrir því að við eigum ekki að gerast þarna aðilar. Við erum með einangrað raforkukerfi í okkar landi. Við erum eyland, ekki í tengslum við orkumarkað Evrópu og hér gilda allt önnur viðhorf en á meginlandinu í sambandi við þessi mál.

Það heyrast oft miklar skammir um okkar raforkufyrirtæki, þar á meðal og ekki síst Landsvirkjun, það stóra fyrirtæki sem sér fyrir framleiðslu á meginhluta af raforku þjóðarinnar og menn leiða líkur að því að ástandið yrði betra ef einhverjir aðrir kæmu þar við sögu. Ég hef ekki þá sannfæringu í þeim efnum sem ég heyri suma mæla fyrir. Ég neita því ekki að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með sitthvað í stefnu Landsvirkjunar. Það er margt sem þar þarf endurskoðunar og fyrirtækið þarf að setja sig í allt aðrar stellingar, ekki síst gagnvart umhverfismálum, en tekist hefur fram að þessu. Ég tel hins vegar að því fylgi ákveðnir kostir að meginraforkuframleiðslan í landinu sé á einni hendi í opinberu fyrirtæki og bendi m.a. á markmið eins og það að jafna raforkuverð í landinu sem geti orðið mun erfiðara ef við erum með svonefnda frjálsa samkeppni og þurfum ekki langt að leita til þess að sjá til hvers það gæti leitt. Ég tel því nauðsynlegt að menn átti sig a.m.k. á því miklu betur en orðið er hvað sé æskilegt fyrir Íslendinga í þessum efnum varðandi tilhögun á framleiðslu og dreifingu raforku áður en við förum að binda okkur í viðjar tilskipana frá Brussel.

Ég vildi leyfa mér, virðulegur forseti, að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ég hafi ekki tekið rétt eftir að sú tillaga sem hæstv. iðnrh. bar fram á síðasta þingi er ekki á því yfirliti --- ég tók a.m.k. svo eftir að hún væri ekki á því yfirliti --- sem dreift var með stefnuræðu forsrh., þannig að það liggi fyrir að það sé ekki hugmyndin að knýja á um afgreiðslu á því máli á þessu þingi.

Ég vildi svo, virðulegur forseti, áður en ég vík úr stóli leggja til að að lokinni umræðu verði þessari tillögu sem við ræðum hér vísað til hv. iðnn.