Einkavæðing fiskeldisfyrirtækisins Stofnfisks

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:04:48 (255)

1998-10-12 15:04:48# 123. lþ. 7.1 fundur 39#B einkavæðing fiskeldisfyrirtækisins Stofnfisks# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í DV á föstudaginn var vakin athygli á sérkennilegu máli sem snýr að landbrh. Ríkið starfrækir fiskeldisfyrirtæki sem heitir Stofnfiskur. Nú á að einkavæða það en áður en það er gert er gerður samningur um kaup ríkisins á laxahrognum upp á 250 millj. næstu átta ár. Þetta er óskiljanleg aðgerð. Hún skekkir samkeppnisstöðu á markaðnum og er óþolandi fyrir önnur fiskeldisfyrirtæki. Jafnframt brýtur þetta í bága við starfsreglur einkavæðingarnefndar þar sem kveðið er á um að engir samningar sem kveða á um sérréttindi fyrirtækisins til að annast þjónustu við ríkisstofnanir skuli fylgja sölu. Hér er því um tvöfalt brot að ræða.

Engu skiptir að þessi samningur eykur verðmæti fyrirtækisins. Hann skekkir samkeppnisstöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum sem vel geta selt ríkinu laxahrogn. Það er með rökum hægt að kalla þennan samning ríkisstyrk. Það hefur vissulega verið samningur í gangi milli ríkisins og Stofnfisks en um lægri fjárhæðir og vitaskuld horfir öðruvísi við þegar fyrirtækið er einkavætt.

Ráðherrann segir einnig í viðtali að hægt hefði verið að gera slíkan samning við eitthvert annað fyrirtæki en Stofnfisk. Hér er því klárlega um misnotkun á opinberu fé og aðstöðu að ræða og tilteknu fyrirtæki hyglað á kostnað annarra. Hér er um að ræða þjónustu sem aðrir geta innt af hendi þannig að hér er ekki verið að gæta hagsmuna ríkisins. Málið er í höndum landbrh. og einkavæðingarnefndar. Ég bið ráðherra um skýringar á þessu og spyr hvort hann sé reiðubúinn að láta þennan samning ganga til baka og standa eðlilega að einkavæðingu þessa fyrirtækis.