Einkavæðing fiskeldisfyrirtækisins Stofnfisks

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:09:13 (257)

1998-10-12 15:09:13# 123. lþ. 7.1 fundur 39#B einkavæðing fiskeldisfyrirtækisins Stofnfisks# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:09]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin en ég lít svo á að hæstv. ráðherra beri skylda til að ganga í þetta mál en láta það ekki vera á valdsviði einkavæðingarnefndar. Í þessu sama viðtali ver formaður einkavæðingarnefndar þessa ákvörðun en ákvörðunin er óeðlileg, m.a. vegna þess sem hæstv. ráðherra hefur sagt. Það er hægt að gera slíkan samning við önnur seiðaeldisfyrirtæki. Hér er um að ræða mismunun gagnvart fyrirtækjum þegar verið er að einkavæða. Slíkur samningur má ekki fylgja þegar verið er að einkavæða vegna þess að hann mismunar öðrum fyrirtækjum og hann brýtur í bága við starfsreglur einkavæðingarnefndar. Ég óska því eftir, herra forseti, að ráðherrann hafi frumkvæði að því að endurmeta þennan samning. Það er enginn að tala um að stöðva eigi einkavæðingu þessa fyrirtækis. Það geta menn gert ef menn telja það vera rétt og eðlilegt. Hins vegar er mjög mikilvægt í svona málum að rétt og eðlilega sé staðið að því og það orki hvergi tvímælis gagnvart öðrum samkeppnisaðilum að og hér sé ekki staðið rétt að málum.