Fangelsismál

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:32:00 (276)

1998-10-12 15:32:00# 123. lþ. 7.1 fundur 44#B fangelsismál# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:32]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að ekki skuli hafa orðið stefnubreyting en ég verð að segja að fróðlegt væri að fá upplýsingar frá hæstv. dómsmrh. um hversu oft þetta hefur gerst. Ég vil aftur spyrja þeirrar spurningar sem ég spurði í lokin: Er einhver heilbrigðisþjónusta í fangageymslum lögreglunnar þegar fársjúkt fólk er tekið og flutt af sjúkrahúsum inn í fangaklefa og lokað þar inni jafnvel hátt í sólarhring? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum finnist það vera hlutverk lögreglunnar. Ég veit að lögreglan þarf auðvitað oft að grípa inn í og koma til aðstoðar, ég geri ekki athugasemdir við það. En hún flytur fársjúkt fólk af sjúkrahúsum inn í fangageymslur og ég spyr hvort það sé hlutverk lögreglunnar að hans mati. Er það siðlegt?