Áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:42:04 (284)

1998-10-12 15:42:04# 123. lþ. 7.1 fundur 46#B áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Á síðasta þingi samþykkti Alþingi ályktun vegna flutnings þáltill. um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Ég leyfi mér að lesa þessa ályktun upp, með leyfi forseta, hún er stutt:

,,Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að gera átak í rannsóknum á áhrifum veiða og mismunandi veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Sérstaklega verði kannað hver áhrif veiðanna eru á botnfiskstofna, viðkomu þeirra og afrakstursgetu, sem og áhrif veiða með dragnót, botnvörpu og öðrum dregnum veiðarfærum á botnlagið.

Til verkefnisins verði veitt sérstök fjárveiting næstu þrjú ár í samræmi við kostnaðaráætlun Hafrannsóknastofnunarinnar.``

Þessi ályktun var samþykkt samhljóða á Alþingi á sl. vori. Það hryggir mig, virðulegur forseti, að ég sé þess ekki merki í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar að tekið sé tillit til þessa vilja Alþingis þar sem vísað er í kostnaðaráætlun frá Hafrannsóknastofnun sem gerir ráð fyrir 25 millj. kr. framlagi á næsta ári og tæplega 20 millj. kr. næstu tvö árin á eftir.

Ég undraðist líka að við umræðu um fyrirspurn fyrr í dag virtist þetta ekki ofarlega í huga manna, að Alþingi hefði lýst vilja sínum um þessi mál og jafnframt til að fjárveitingu yrði varið í þessu skyni. Það er hins vegar ánægjulegt að fleiri en ég og væntanlega mjög margir hafa tekið eftir því sem sást á sjónvarpsskjá í gær í ágætum fréttapistli um þessi mál í Noregi. Ég held að það ætti að vera Alþingi hvatning til þess að staðið verði við þá ályktun sem þingið gerði á þessu ári.