Framlagning stjórnarfrumvarpa

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 16:07:07 (296)

1998-10-12 16:07:07# 123. lþ. 7.95 fundur 52#B framlagning stjórnarfrumvarpa# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að forseti á ekki auðvelt með að svara þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram og þó svo ég hefði e.t.v. átt að vekja máls á þessu í upphafi fundar undir liðnum um störf þingsins, þá bar svo við að hér voru þannig mál á dagskrá að fyrir mér var það eðlilegra að ræða þetta um leið og hið litla stjfrv. kæmi til umræðu.

Herra forseti. Eins og heyra má af undirtektum er þetta frekar alvarlegt mál og ég óska eftir því, ef forseti á þess nokkurn kost, að hann upplýsi okkur um hvaða mál það eru sem fyrirhugað er að dreifa í þingsal í dag og á morgun þannig að við hefðum einhverjar hugmyndir um hvaða mál koma hugsanlega til umræðu nk. fimmtudag. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið, að forseti leiti eftir því hjá formönnum þingflokka stjórnarflokkanna að reynt verði að reka á eftir því að frumvörp komi til þingsins til þess að ekki halli stöðugt á stjórnarandstöðuna þegar kemur að vinnunni með frumvörpin á vori komanda eins og við höfum reynslu af.