Almannatryggingar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 16:14:00 (301)

1998-10-12 16:14:00# 123. lþ. 7.10 fundur 19. mál: #A almannatryggingar# (tekjur maka) frv., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Flutningsmenn auk þeirrar sem hér stendur eru hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Bryndís Hlöðversdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir.

1. gr. frv. hljóðar svo:

,,Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Tekjur maka hafa ekki áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Þessi breyting á almannatryggingalögunum, nr. 117/1993, hefur verið lögð fram tvívegis áður, þ.e. á 121. og 122. löggjafarþingi. Málið kom í hvorugt skiptið til atkvæðagreiðslu. Í fyrra skipti þótti ekki ráðlegt að taka málið til umfjöllunar í þinginu vegna þess að kæra hafði borist til umboðsmanns Alþingis vegna framkvæmdar á 17. gr. um tekjutrygginguna en í eldri lögunum um almannatryggingar, nr. 67/1971, var í 17. gr. sérstök reglugerðarheimild um það hvernig tekjutrygging lífeyrisþega skerðist.

Þegar lögunum var breytt 1993 var þessi reglugerðarheimild ekki lengur í 17. gr. og var málinu því skotið til umboðsmanns Alþingis sem fjallaði um það og skilaði 27 síðna áliti, sem má segja að hafi verið ákall til Alþingis um afstöðu í málinu. En spurningin er um hvort tekjur maka lífeyrisþega megi skerða tekjutryggingu hans.

[16:15]

Þeir sem hafa kynnt sér þessi mál og þekkja þau og hafa lent í því að þurfa að hlíta þessari reglu eru allir sammála um hversu óréttlát hún er, þ.e. að tekjur maka skerði greiðslur lífeyrisþega.

Af því að ég gerði álit umboðsmanns að umræðuefni í upphafi vil ég geta þess að ekki var leitað álits umboðsmanns á því hvort þessi reglugerð um skerðingu tekjutryggingarinnar stangaðist á við önnur lög eða hvort hún stangaðist á við alþjóðasáttmála, en það hefur komið fram í rökum gegn þessari reglu að þetta stangist á við bæði önnur lög sem við höfum sett og sömuleiðis alþjóðasamþykktir og mun ég fara yfir það hér á eftir.

Eins og menn þekkja hefur verið þjóðarsátt um samhjálpina á Íslandi og má segja að nýleg skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir BSRB staðfesti það að menn vilji halda hér uppi öflugri samhjálp, öflugu velferðarkerfi. Samkvæmt því er réttlætismál að sá sem ekki getur séð sér farborða með því að vinna fyrir sér fái lágmarksframfærslu úr sameiginlegum sjóðum velferðarkerfisins.

Nú er það svo að þeir sem missa atvinnuna, geta ekki unnið fyrir sér, fá greiddar atvinnuleysisbætur óháð tekjum maka. Það sama gildir ekki um lífeyrisþega. Sá sem missir heilsuna heldur ekki bótum úr almannatryggingunum óháð tekjum maka síns. Eins og málum er háttað nú skerða tekjur maka lífeyrisgreiðslur og hefst skerðingin er tekjur maka fara yfir 40.224 kr. Þá byrja þær að skerða tekjutryggingu lífeyrisþegans.

Upphæðin sem tekjur maka byrja að skerða er 43.726 kr. hjá öryrkjum. Um leið og þeir fara yfir tæplega 44 þúsund þá byrja 40 þúsund kr. tekjur makans að skerða þessar bætur. Menn sjá nú hvað eftir er þar. Hjá ellilífeyrisþegum er það heldur lægri upphæð, 42.947 kr., sem byrja að skerðast hjá ellilífeyrisþeganum ef maki hans er með yfir 40 þús. kr. á mánuði og það er ef lífeyrisþeginn hefur engar aðrar tekjur en almannatryggingabæturnar. Ungt fjölskyldufólk sem missir heilsuna fær því oft aðeins grunnlífeyri, 15.123 kr., úr almannatryggingakerfinu ef það á maka á vinnumarkaði.

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að í Degi á miðvikudaginn var var einmitt fréttaskýring um stöðu lífeyrisþega sem lenda í þessari fátæktargildru. Friðrik Þór Guðmundsson fjallar um þetta þar og mig langar til, herra forseti, aðeins að benda á í hvaða stöðu menn geta verið og hér er dæmi um það beint upp úr Degi á miðvikudaginn var. Þar segir frá manni sem var sjómaður og fékk krabbamein. Sem betur fer tókst honum að sigrast á þeim sjúkdómi, a.m.k. lítur ekki út fyrir annað. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Og það virðist vera sem maður sé hvergi hæfur á vinnumarkaðnum með þennan sjúkdóm. Bæði er það röddin og svo tekur krabbinn ótrúlega mikinn mátt úr manni þótt hann sé tekinn burt.``

Síðan lýsir hann stöðu sinni þar sem hann hefur verið metinn öryrki og þarf að treysta á velferðarkerfið. Í Degi er mynd af þeim hjónum með fjögur lítil börn og þið getið ímyndað ykkur stöðuna hjá þessu fólki. Hann á rétt á rúmum 40 þús. kr. og ef konan hans sem starfar sem heimilishjálp fær tekjur yfir 42 þús. kr. þá fara þær að skerða 40 þúsundirnar hans úr Tryggingastofnun. Enda kemur það fram því hann segir, með leyfi forseta:

,,,,Ég fékk bréf frá þeim`` --- þ.e. Tryggingastofnun ríkisins --- ,,á dögunum. Þeir töldu sig hafa greitt mér of mikið og sögðust ætla að taka það til baka. Bæturnar, sem fyrir höfðu farið minnkandi, hurfu núna vegna þessarar svokölluðu leiðréttingar. Það var ekkert eftir. Og síðan kemur spurningin hvort ég fái nokkuð útborgaðar bætur meir, vegna tengingarinnar við tekjur maka.``

Birna vinnur hjá heimaþjónustu borgarinnar. ,,Það er nú síst hátekjustarf hjá henni, en hennar laun ásamt lífeyri sem ég hef úr gamla lífeyrissjóðnum mínum, virðist samt duga til að skera lífeyrinn og tekjutrygginguna niður í núllið. Mér sýnist á öllu að reginmunur sé á því að vera öryrki eða atvinnulaus; því atvinnuleysisbætur til mín mundu ekkert skerðast þótt Birna væri með milljón krónur á mánuði. En ég er öryrki og fæ skertan skammt og fæ ekkert um það að segja. Það er í íslenskum lögum að þegar tveir aðilar stofna til hjónabands hafi þeir báðir framfærsluskyldu. En það er búið að svipta mig þessum rétti og skyldu að vera framfærandi. Þetta er að mínu viti hreint mannréttindabrot. Og mér sýnast skilaboðin skýr; við Birna erum með 31 árs hjónaband að baki en tenging bótanna við tekjur maka jafngildir því að það sé verið að banna okkur að vera saman. Þetta er aðskilnaðarstefna í verki, ...`` Þetta segir Ágúst Jónsson sem segir sögu sína í Degi á miðvikudaginn.

Þetta er því miður ekki eina dæmið því að þau eru mýmörg í þessa veru. Því miður hefur aðskilnaðarstefnan sem hefur falist í þessari óréttlátu skerðingarreglu sundrað fjölskyldum og því miður get ég sagt það af minni eigin reynslu að ég hef hitt allmarga lífeyrisþega sem hafa staðið í svipuðum sporum og Ágúst lýsti og hafa neyðst til þess að skilja. Oft er það svo að fólk skilur kannski á pappírunum til að byrja með en það vill oft verða til þess að menn leiðast út í raunverulegan skilnað. Fjölskyldan leysist upp.

Þetta er lagt á fólk sem er búið að missa heilsuna, fjölskylduáhyggjurnar, fjárhagsáhyggjurnar og félagslegu vandamálin sem fylgja því að þetta fólk getur ekki leyft börnunum sínum nokkurn skapaðan hlut eins og þau lýsa einmitt í þessari fréttaskýringu í Degi á miðvikudaginn var, þ.e. að þau geta ekki leyft börnunum sínum að vera í íþróttum eða taka þátt í nokkrum sköpuðum hlut sem kostar peninga vegna þessara smánargreiðslna og hinnar ósanngjörnu reglu sem viðgengst. Þessi tekjutenging er jaðarskattur sem fólk kemst ekki út úr.

Þess ber að geta vegna þess að ég var að tala hér um maka að þetta gildir ekki aðeins um hjón heldur gildir þetta líka um sambýlisfólk og eins og menn þekkja þá er það nú oftast þannig að sambýlisfólk er yfirleitt ekki með sameiginlegan fjárhag. Og það er mjög sérkennilegt að einstaklingur sem leigir íbúð með öðrum eða býr með öðrum þurfi sífellt að vera að hnýsast í það hvað sambýlisaðilinn er með í tekjur til þess að geta vitað hversu miklar tekjur hann má sjálfur hafa því annars lendir hann í þeirri gildru sem Ágúst lýsti í Degi að þurfa að endurgreiða ofgreiðslur frá fyrra ári og fá jafnvel ekki neitt mánuðum saman.

Þetta gildir einnig um hjónin. Öryrki sem á maka í vinnu þarf sífellt að vera að athuga það hversu miklar tekjur maka hans eru til þess að vita hvernig staða hans sjálfs er. Ég bið þingmenn í salnum að velta því fyrir sér hvort þeir eru mikið að hnýsast í það hvað maki þeirra er með í tekjur frá mánuði til mánaðar til þess að geta hugsað það út hversu mikið þeir geti síðan leyft sér að fá í tekjur. Þetta er ekki boðleg regla.

Í sambandi við þessa reglu vil ég aðeins grípa aftur niður í greinargerðina og það sem ég minntist á áðan að heimildin fyrir þessari skerðingu er byggð á reglugerð nr. 485/1995, um tekjutryggingu. Ákvæði hennar hafa það í för með sér að fjölskyldur lífeyrisþega lenda í þessari fátæktargildru sem ég lýsti hér áðan þar sem tekjur maka, auk tekna lífeyrisþegans sjálfs, geta skert tekjutryggingu hans. Ég verð að segja það hér og hef sagt það oft áður úr þessum ræðustóli að reglugerðin virðist andstæð lagaákvæðinu sem tekjutryggingin byggist á, en í 17. gr. almannatryggingalaganna segir að tekjur bótaþega umfram ákveðið mark skuli skerða tekjutryggingu, þ.e. tekjur bótaþega. Ekkert er minnst á maka í greininni eða tekjur hans. Í 11. gr. sömu laga er fjallað um skerðingu ellilífeyris vegna tekna. Þar er talað um tekjur einstaklinga og hjóna hvors um sig. Sama á við um 12. gr. þar sem kveðið er á um skerðingu örorkulífeyris. Það er talað um tekjur einstaklingsins og hjóna hvors um sig.

Ekki er nóg með að reglugerðin sé andstæð almannatryggingalögum heldur virðist einnig um að ræða brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar, en henni var breytt 1995, eins og menn hlýtur að reka minni til í þessum sal. Í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Lífeyrisþegum er með þessari skerðingarreglu mismunað eftir hjúskaparstöðu. Það er alveg ljóst. Fólki á vinnualdri er einnig mismunað eftir því hvort það á við atvinnuleysi eða heilsubrest að stríða. Slík mismunun hlýtur að teljast andstæð anda stjórnarskrárinnar.

Reglugerðin virðist einnig brjóta gegn 11. gr. stjórnsýslulaganna, nr. 37/1993, þar sem segir að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og að þeim sé beinlínis óheimilt að mismuna aðilum á grundvelli þjóðfélagsstöðu eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Hér virðast lög vera brotin, ekki ein heldur fleiri á þeim sem síst skyldi og geta ekki eða illa borið hönd fyrir höfuð sér.

Ég vil vekja athygli á því, vegna þess að í umræðu um þessa tekjutengingu hefur komið fram bæði hjá hæstv. heilbrrh. og fleirum að aðrir heilbrrh. hafi ekki tekið á þessu máli, að á það ber að benda að ég hef hér verið að vitna í breytingu á stjórnarskránni frá 1995 sem kveður á um þessi atriði og því orðið tímabært nú að breyta þessu. Kannski hefur ekki verið eins rík ástæða áður þó að ég hafi alltaf talið þessa reglu vera mjög ósanngjarna.

[16:30]

Ég vil líka vekja athygli á því að við meðferð fyrsta almannatryggingalagafrv. árið 1935 á Alþingi kom fram í nál. að gert væri ráð fyrir að í almannatryggingunum fælist hrein persónutrygging. Samkvæmt því er það andstætt hugsun laganna að færa tryggingaskylduna yfir á maka. Og að hið opinbera firri sig ábyrgð ef lífeyrisþeginn er í hjónabandi eða í sambúð eins og ég lýsti áðan --- hvað þá í sambúð, segi ég nú frekar.

Þá stríðir þetta líka gegn mannréttindasáttmálum og alþjóðasáttmálum sem við höfum skuldbundið okkur til að virða. Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á allsherjarþinginu 10. desember 1948, segir í inngangsorðum, með leyfi forseta:

,,Það ber að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.``

Í 2. gr. sáttmálans segir einnig, með leyfi forseta:

,,Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.``

Í 16. gr. er fjallað um jafnrétti til hjúskapar og stofnunar fjölskyldu og er þar sérstaklega kveðið á um hlutverk fjölskyldunnar og skyldur ríkisins gagnvart henni. Þar segir, m.a.:

,,Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana.``

Í 25. gr. sáttmálans segir enn fremur: ,,Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissis, elli eða öðrum áföllum sem skorti valda og að fötluðum sé ekki mismunað með lögum hvað varðar kynferðissambönd, hjónaband og barneignir.`` En það er alveg ljóst að þessi regla eða reglugerð mismunar fólki eftir því hvort það er í sambúð, hjónabandi eða hvort það býr eitt og vinnur gegn fjölskyldunni en verndar hana ekki eins og gera ber skv. 16. gr.

Mig langar líka til að geta þess að margoft hefur komið fram hjá heilbrigðisstarfsmönnum, sálfræðingum, læknum og fleirum að miklar fjölskylduáhyggjur, fjárhagsáhyggjur og félagsleg vandamál auka líkur á heilsubresti, hvað þá ef maður er með heilsubrest fyrir, þá er það ekki til að bæta ástandið að leggja þetta á hinn heilsulausa.

Reglugerðin, sem ég gerði að umtalsefni áðan, sem kveður á um að tekjur maka skerði tekjutryggingu lífeyrisþega, og er byggð á mjög hæpnum grunni eins og ég hef rakið, grefur vissulega undan hjónabandinu, það eru ótalmörg dæmi um það, og einnig möguleikum lífeyrisþega til að hefja sambúð og stofna fjölskyldu. Það er hægt að leiðrétta með því að samþykkja þetta frv.

Greiðslur til lífeyrisþega, ekki síst öryrkja, skulu vera óháðar tekjum maka. Þannig styðjum við best við bakið á því fólki sem verst er statt í samfélaginu og einnig við þá grunneiningu þjóðfélagsins sem fjölskyldan er. Einnig er ástæða til að benda á það að lífeyrisþegi í hjónabandi eða sambúð á ekki rétt á heimilisuppbótum allt að 19.811 kr. á mánuði, sem hann ætti rétt á byggi hann einn. Það er því verið að mismuna þeim sem eru í hjónabandi eða sambúð með lægri greiðslum og fá þeir allt að því þriðjungi lægri almannatryggingagreiðslur en einstaklingur, því að hæstu greiðslur eru um 63 þús. kr. Sá sem er í sambúð fær allt að því 20 þús. kr. lægri greiðslur úr kerfinu ofan á það að tekjur maka skerða tekjutrygginguna. Þess vegna er lagt til í frv. að sett verði í almannatryggingalögin ákvæði sem felur það í sér að tekjur maka skuli ekki hafa áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega. Þrátt fyrir það verða þeir með 20 þús. kr. lægri greiðslur en einbúi.

Ég vil benda á tvö fskj. með frv. en í fyrravor komu fulltrúar kjaranefndar Öryrkjabandalags Íslands á fund heilbr.- og trn. Alþingis með erindi um að við tækjum þetta mál upp og beittum okkur fyrir því að breyta þessum óréttlátu reglum. Áður hafði hv. þm. Margrét Frímannsdóttir vakið athygli í utandagskrárumræðu á því óréttlæti sem lífeyrisþegar í hjónabandi eða sambúð, þ.e. fjölskyldur lífeyrisþega búa við. Það hafði hún gert ári áður, um það leyti sem málið var til umfjöllunar hjá umboðsmanni Alþingis.

Með þessu frv. er bréf frá kjaranefnd Öryrkjabandalags Íslands sem er mjög ítarlegt og rekur þetta mál vel reyndar út frá kærunni til umboðsmanns Alþingis en engu að síður eru mjög sterk rök færð fyrir því að þessi regla er ekki í takt við íslenska lagasetningu. Ég vil einnig nefna það að í bréfinu frá kjaramálanefndinni er bent á að við erum aðilar að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra og voru þær kynntar einmitt í fyrra á Alþingi. Þar er sérstakur bálkur þar sem segir að aðildarríkin skuli tryggja að öryrkjum sé ekki mismunað í möguleikum til hjónabands og fjölskyldulífs. Umboðsmaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra, Bengt Lindqvist, sem á að hafa eftirlit með því að mannréttindi fatlaðra séu í heiðri höfð, sá ástæðu til að gagnrýna það opinberlega í desember sl. hvernig reglugerð íslenskra stjórnvalda takmarkar möguleika fatlaðra til hjónabands og fjölskyldulífs. Þess vegna fór kjaramálanefnd Öryrkjabandalagsins fram á það og óskaði eftir því við þingmenn að þeir tækju ,,sem fyrst á þessu alvarlega máli, svo það böl sem stöðugt hlýst af núgildandi fyrirkomulagi mundi einhvern endi taka.``

Ég vil líka benda á samþykkt prestastefnu á Akureyri frá 1997, sem fylgir hér með, þar sem hún ályktar um þetta mál, um ,,að gerð verði gangskör að því að leiðrétta það ranglæti sem öryrkjar búa við,`` þ.e. að tekjutrygging þeirra skerðist við laun maka.

Nú hefur hæstv. heilbrrh. lýst því yfir að hún hyggist afnema þessa óréttlátu reglu í áföngum og muni taka eitt skref í því á þessum vetri. Í umræðunni um fjárlögin í síðustu viku kom ekki fram hversu miklar fjárhæðir ættu að fara í þetta, en í dagblöðum hefur komið fram að 200 millj. eigi að fara í að stíga fyrsta skrefið í að afnema þessa óréttlátu tengingu, en auðvitað verður að afnema þessa tengingu við tekjur maka að öllu og fullu. Það er ekki hægt að bjóða þessum hópi fólks upp á það að brotin séu á honum mannréttindi. Það er búið að gera það nógu lengi og núna í sólskini ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hlýtur að vera meira en það til handa þeim hópi, sem reyndar hefur verið afskiptur og hefur fært gild rök fyrir því að hann hefur ekki fengið þann hluta af góðærinu sem ýmsir aðrir hafa talið sig fá, að það verður að hætta slíkum mannréttindabrotum á þessum hópi og afnema þessa reglu. Öryrkjabandalagið hefur lýst því yfir að það muni berjast fyrir málinu og ekki aðeins þessu máli því að það eru fleiri óréttlætismál sem snúa að kjörum þessa hóps, eins og t.d. mikil tekjutenging og mjög lágar greiðslur úr tryggingakerfinu sem þarf auðvitað að bæta. En eitt af þessum baráttumálum öryrkja og lífeyrisþega, jafnvel ellilífeyrisþega sem eru með lægstar greiðslurnar úr velferðarkerfinu er að fá þessa óréttlátu reglu afnumda að fullu og menn munu ekki sætta sig við annað.

Herra forseti. Ég tel mig hafa rakið það að flestu leyti hvers vegna menn ættu að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir og afnema þá óréttlátu reglu um tekjutengingu við tekjur maka hjá lífeyrisþegum.

Ég legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.