Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 16:42:09 (302)

1998-10-12 16:42:09# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[16:42]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Hér er komin á dagskrá till. til þál. um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Þetta er stórt mál og ég hafði óskað eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. iðnrh. yrði viðstaddur umræðuna og honum yrði gert viðvart og vænti ég þess að hann komi í sal mjög fljótlega. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi verið gert viðvart um það að minni beiðni og ég met það að hæstv. umhvrh. er viðstaddur umræðuna. Raunar hagaði svo til að þegar málið var á dagskrá fyrir helgi hafði hæstv. umhvrh. bæði ráðuneytin, gegndi þá embætti fyrir hæstv. iðnrh. Þá ætluðum við að ræða málið saman og hefðum kannski komist að skynsamlegri niðurstöðu en nú höfum við báða hæstv. ráðherra sem málið snertir og ég fagna því að þeir eru viðstaddir umræðuna.

Tillaga sú sem ég mæli fyrir er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram mat samkvæmt lögum nr. 63/1993 á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, þrátt fyrir að virkjunarleyfi hafi verið veitt.``

Þetta er tillögutextinn. Hann er ekki langur en það er mikið spurt eftir viðbrögðum við þeirri kröfu sem felst í þessum tillöguflutningi. Hliðstæð tillaga var lögð fram af mér sem þingmanni sl. vor en nú flytja málið með mér aðrir félagar mínir í þingflokki óháðra, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson.

Það mál sem hér er fjallað um hefur verið mikið rætt opinberlega á undanförnu ári og árum er óhætt að segja, og samþykktar hafa verið fjölda ályktanir um það af almannasamtökum þar sem beint er þeirri áskorun til stjórnvalda að fram fari lögformlegt umhverfismat vegna áforma um framkvæmdir við þessa virkjun. Í þessum hópi eru áhugafélög um umhverfis- og náttúruvernd, sem hafa öll að mig minnir látið til sín heyra. Það á a.m.k. við um áhugasamtök á Austurlandi, Náttúruverndarsamtök Austurlands og Félag um verndun hálendis Austurlands og það á við um Náttúruverndarsamtök Íslands sem hafa látið sig þetta mál mikið varða, þau ungu samtök. En það eru einnig margir fleiri sem hafa látið til sín heyra og síðast var það sveitarstjórn nýs sveitarfélags á Austurhéraði sem ályktaði um málið á fundi sínum nýlega eða 6. október, þar sem gerð var og samþykkt svohljóðandi bókun, með leyfi forseta:

[16:45]

,,Í framhaldi af umfjöllun um bréf Landsvirkjunar, dags. 31. júlí 1998, sem varðar mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar beinir sveitarstjórn Austurhéraðs eftirfarandi ályktun til stjórnar Landsvirkjunar og umhvrh.:

Sveitarstjórn Austurhéraðs telur nauðsynlegt að fram fari lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar.``

Síðan stendur í þessu bréfi sem m.a. var sent þingmönnum Austurl. en einnig umhvrn.:

,,Um leið og framangreindri bókun er komið á framfæri við hlutaðeigandi sendast hjálagðir umræðupunktar frá umhverfis- og atvinnumálaráði Austurhéraðs varðandi sama málefni. Er það ósk ráðsins og sveitarstjórnarinnar að áhersluatriði þau sem þar koma fram verði höfð til hliðsjónar í þeirri vinnu sem fram undan er.``

Þessa ályktun og bókun sendir bæjarstjóri Austurhéraðs til þingmanna Austurl. og umhvrn. Ég ætla hér ekki að taka tíma til að fara yfir umræðupunkta til athugunar vegna vinnu við umhverfismat Fljótsdalsvirkjunar sem fylgdu þessari ályktun, nema þá síðar í umræðunni ef tími leyfir. Þar er lögð áhersla á að könnuð verði áhrif á lífríki alls virkjanasvæðisins frá Vatnajökli og út í Héraðsflóa, áhrif á Löginn og Lagarfljót, áhrif vegna veitna Hölknár, Laugarár, Keldár, Sauðár og Grjótár og áhrif á ýmsa þætti sem nánar eru skilgreindir.

Þessi ályktun er ný af nálinni og kemur frá sveitarfélagi sem er nálægt þeim vettvangi sem um ræðir, frá fjölmennasta sveitarfélagi á Fljótsdalshéraði og skiptir auðvitað máli í því samhengi sem við ræðum málið. Skylt er að taka fram að ekki var full eining um þessa ályktun en þetta var niðurstaða sveitarstjórnarinnar.

Þá vil ég minna á, virðulegur forseti, að í umræðum um þessi mál hafa komið fram mjög mikilsverðar yfirlýsingar frá ráðamönnum í landinu. Ég tel nauðsynlegt að geta þeirra í framsögu fyrir tillögunni. Þann 16. júlí 1998 hefur dagblaðið Dagur eftir hæstv. umhvrh. að hann ætli að leggja það til í ríkisstjórn að umhverfismat fari fram vegna Fljótsdalsvirkjunar. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna orðrétt til ummæla hæstv. umhvrh. eins og þau koma fram í blaðinu:

,,,,Ég mun taka málið upp í ríkisstjórn og hreyfa þeirri hugmynd þar að Fljótsdalsvirkjunin fari formlega í umhverfismat. Það er minn vilji að svo verði og ég tel að Landsvirkjun eigi að fallast á það að Fljótsdalsvirkjun fari undir hin nýju lög um umhverfismat. En ég ræð því ekki einn,`` sagði Guðmundur Bjarnason umhvrh. á opnum fundi um umhverfismál á Hótel Borg í gærdag.

Hann benti á að Landsvirkjun hefði nú þegar lögformlegt leyfi til að virkja í Fljótsdal án þess að láta fara fram umhverfismat vegna þess að leyfið var veitt áður en lög um umhverfismat voru sett.`` Síðan er fjallað nánar um það.

Annað atriði sem ég vil geta um, sem kom fram hálfum öðrum mánuði fyrr eru ummæli annars ráðamanns og áhrifamanns í þingflokki Framsfl., formanni í umhvn. Alþingis, hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar sem lét það koma fram í viðtali við dagblaðið Dag þann 15. maí að hann styddi það að fram fari umhverfismat. Með leyfi forseta, gríp ég niður í viðtalið við hv. þm.:

,,Ég vil alveg skilyrðislaust að Landsvirkjun láti fara fram mat á umhverfisáhrifum á Norð-Austurlandi vegna fyrirhugaðrar virkjunar þar. Ég vil að þetta verði gert jafnvel þó að Landsvirkjun megi virkja án þessa, vegna þess að heimildin sem hún hefur er fengin áður en lögin um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi. Það væri úr takt við kröfur tímans og fagleg vinnubrögð að ætla að sleppa umhverfismati á þessu svæði. Og þá á ég við bestu aðferðir við það mat en enga skemmri skírn. Það má vel vera að við það mundi einhver orka tapast og þá eigum við bara að taka því. Það væri þá bara það verð sem við eigum að vera tilbúin að greiða fyrir verndun náttúruperlna,`` segir Ólafur Örn Haraldsson.

Ég fagnaði auðvitað þessum ummælum sem þarna lágu fyrir og liggja hér fyrir sem yfirlýsing af hálfu hv. þm. sem formanns umhvn. þá og nú.

Við umræðuna nú væri auðvitað mjög dýrmætt að fá að heyra viðhorfin hjá hæstv. ráðherrum Framsfl. sem hafa þetta mál í hendi sinni, hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. Við hljótum að vænta þess að málið skýrist við þessa umræðu. Það er mikil þörf á að þetta mál skýrist.

Þannig hefur málið gengið fyrir sig, virðulegur forseti, að sérstaklega hæstv. iðnrh. hefur skotið sér á bak við það, um leið og hann telur sig styðja það hann kallar umhverfismat á framkvæmdum, það sem gert verði áður en ráðið styður framkvæmdir við þessa virkjun, að vísa til þess að Landsvirkjun hafi ráðgert að láta fara fram mat á sínum vegum og það sé stjórnar Landsvirkjunar að taka á því máli.

Eins og fram kemur í tillögutextanum er skorað á ríkisstjórnina að láta mat þetta fara fram. Auðvitað er öllum ljóst að það er á valdi ríkisstjórnarinnar að taka ákvarðanir í þessu máli. Enginn annar er bærari um það en ríkisstjórnin sjálf. Ef ríkisstjórnin telur sig vera í aðstöðu til þess að láta Landsvirkjun fara í málið án beinnar íhlutunar sinnar þá er það ekki nema góðra gjalda vert út af fyrir sig. Menn mundu ekki gera athugasemdir við það. Spurningin er um það hvort hér verði farið að lögum um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. að umhverfismatið verði framkvæmt sem lögformlegt mat eins og auðvitað eru heimildir til í lögum um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt grein sem veitir hæstv. umhvrh. heimild til að fara út fyrir þann ramma sem þar er dreginn.

Hvernig ímynda menn sér, virðulegur forseti, að hægt sé að halda þannig á málum hér í landinu að hver einasti nýr vegarstúfur eigi að lúta lögformlegu mati á umhverfisáhrifum en framkvæmd af því tagi sem hér um ræðir verði haldið utan við það, þrátt fyrir það sem í lögum segir til bráðabirgða um mat á umhverfisáhrifum? Ég vek sérstaka athygli á því, virðulegur forseti, að lögum samkvæmt átti endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum að hafa farið fram og það fyrir löngu. Með því hefði verið tekið á þessu máli. Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 63/1993 segir, með leyfi forseta, á þessa leið:

,,Lög þessi skulu endurskoðuð jafnframt því sem fram fer endurskoðun skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, og byggingarlaga, nr. 54 16. maí 1978, ásamt síðari breytingum.``

Endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum átti að vera lokið samhliða afgreiðslu skipulagslaganna og ekki síðar en þau lög voru samþykkt. Þau voru samþykkt vorið 1997, ef ég man það rétt eða í lok 121. þings. Þá átti í síðasta lagi að vera búið að ljúka endurskoðun á þessum lögum. Einnig það kemur inn í þetta mál og gerir það enn ljósara að stjórnvöld verða að sjálfsögðu að láta fara fram lögformlegt mat á fyrirhuguðum framkvæmdum.

Það á ekki að hengja hatt sinn á stjórn Landsvirkjunar í þessu sambandi. Það er út af fyrir sig ekkert sjálfgefið að stjórn Landsvirkjunar finni upp á að láta lögformlegt mat fara fram án þess að það sé gert upp við stjórnvöld. Þá er að gera það, virðulegur forseti.

Hér er um að ræða framkvæmdir sem lagaheimild var veitt fyrir árið 1981 eða fyrir 17 árum síðan. Virkjunarleyfi er gefið út 1991 af ráðherra. Síðan eru liðin sjö ár. Ég þarf ekki að hafa um það mörg orð, virðulegur forseti, hvaða breyting hefur orðið á viðhorfum landsmanna til framkvæmda af þeim toga sem hér um ræðir. Ég vil jafnframt segja í sambandi við þetta mál að á öllum áformum um virkjanir norðan Vatnajökuls, á þeim hugmyndum í heild sinni að virkja jökulárnar, Jökulsá í Fljótsdal, Jökulsá á Dal, eða Brú eins og kallað er --- hún ætti að heita Jökla --- og Jökulsá á Fjöllum, og veita þessum vatnsföllum tveimur síðarnefndu austur í Lagarfljót, ætti að fara fram umhverfismat. Í reglum sem Evrópusambandið hefur verið að móta um þessi mál er gert ráð fyrir að skipulags- og framkvæmdaáætlanir af þessu tagi lúti mati á umhverfisáhrifum.

Það er auðvitað allt of seint, virðulegur forseti, að ætla að setja framkvæmdir eins og við Jöklu, þ.e. Jökulsá á Dal, (Forseti hringir.) í mat á umhverfisáhrifum þegar menn eru komnir langleiðina með að semja um orkusöluna frá slíkri virkjun. Þetta á að gera heildstætt strax og hugmyndirnar liggja fyrir. Síðan má fara fram ítarlegra og nákvæmara mat ef fyrra matið hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að ekki séu stórar athugasemdir við hugmyndina í heild sinni.

Við væntum þess, virðulegur forseti, að mál þetta skýrist. Það er í höndum ráðherra Framsfl. að leysa það.