Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 16:58:05 (303)

1998-10-12 16:58:05# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[16:58]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa eindregnum stuðningi við þessa tillögu og jafnframt að lýsa þeirri skoðun minni að stjórnvöld eigi ekki annarra kosta völ en að verða við þeirri áskorun sem kemur fram í tillögunni. Það er í raun sjálfsagt að fara eftir þessu. Eins og 1. flm. og frsm. sagði hljótum við að verða að taka tillit til gjörbreyttra aðstæðna í umhverfismálum og gjörbreyttra viðhorfa frá því að þessar hugmyndir voru mótaðar og samþykktar af stjórnvöldum. Það eru 17 ár síðan Alþingi lagði blessun sína yfir áform um virkjun á þessu svæði sem öllum má nú ljóst vera að mun hafa gríðarleg áhrif á allt umhverfi norðan Vatnajökuls. Það mundi hafa varanleg áhrif vegna þess að við vinnum ekki aftur það land sem þarna á að að sökkva.

Margir eru fróðari um þau áhrif og hvað í húfi er eftir ítarlega og góða umfjöllun í fjölmiðlum, bæði í Morgunblaðinu að undanförnu og í mjög góðum sjónvarpsþáttum sem hafa birst á þessu hausti. Í báðum þessum fjölmiðlum hefur m.a. komið vel fram hver staða okkar er í samanburði við margar aðrar þjóðir, ekki síst frændur okkar Norðmenn. Þeir vildu nú fegnir vera í okkar sporum en ekki sínum eigin. Þeir hafa unnið slík spjöll á norsku landi og náttúru að það verður ekki aftur tekið. Nú ríkir þar eftirsjá og iðrun meðal ráðamanna sem hafa áttað sig á því að þeir hafa farið offari í virkjanaframkvæmdum. Það er kannski ekki síst þess vegna að þeir horfa til Íslands og virðast telja maklegt að herja á ósnortnar víðáttur hér á landi, eftir að hafa gengið svo freklega á sínar eigin.

[17:00]

Eins og kunnugt er af fréttum og m.a. var til umræðu í fyrirspurnatíma fyrr í dag eru uppi hugmyndir um verksmiðjurekstur á Austfjörðum og þá fyrst og fremst á Reyðarfirði að manni skilst á vegum norsks fyrirtækis, Norsk Hydro, sem er í raun forsenda fyrir þeirri virkjun sem um ræðir í þeirri tillögu sem hér er á dagskrá. Hvor framkvæmdin um sig er hinni háð og báðar eru mjög áhrifa- og afdrifaríkar. Risaálbræðsla á Reyðarfirði er vissulega sérstakt umfjöllunarefni en áhrif hennar á umhverfið varða fyrst og fremst aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem við sem þjóð höfum nú síst efni á. Þar að auki eru Austfirðingar að mínu mati á hreinum villigötum með þær hugmyndir að hér sé um einhverja lausn að ræða á þeim vanda sem hefur skapast vegna flutninga fólks af þessu svæði. Það er ekki reynsla Norðmanna að stórvirkjanir og stóriðja megni að snúa slíkri þróun við heldur jafnvel þvert á móti. Þaðan af síður eru menn á réttri leið með þá stefnu að umbylta landi og náttúru svo sem ætlunin er með Fljótsdalsvirkjun. Mergurinn málsins er auðvitað að þegar landi hefur verið bylt, þegar farvegi árstrauma hefur verið breytt, fossar eyðilagðir, landi sökkt o.s.frv., þá er það óafturkallanlegt. Því verður ekki breytt aftur. Það er hægt að stöðva verksmiðjurekstur. Það er jafnvel hægt að jafna slíkar byggingar við jörðu og bæta að miklu leyti úr en spjöll af völdum virkjana verða ekki aftur tekin. Þess vegna hljóta menn að hafa þetta allt í huga þegar stóriðjurekstur er á dagskrá.

Þetta er auðvitað ekki mál Austfirðinga einna, heldur þjóðarinnar allrar. Það er ekki spurning í mínum huga að svæðið sem hér um ræðir er gífurlega dýrmætt í mörgu tilliti. Það er mjög dýrmætt frá sjónarhóli ferðaþjónustunnar. Það er dýrmætt fyrir vísindin og til rannsókna og það er ómetanlegt með tilliti til ímyndar landsins sem tákns um ósnortna náttúru vegna þess að hér er um að ræða stærsta ósnortna víðerni í Evrópu. Það er einmitt slík ímynd sem er í raun og veru grundvöllur þeirra tækifæra sem hvað vænlegust eru til framtíðaruppbyggingar í íslensku atvinnulífi og er raunar löngu orðinn slíkur grundvöllur og þá möguleika má ekki eyðileggja með skammtímasjónarmið í huga. Það er því, herra forseti, að mínum dómi alger lágmarkskrafa að fram fari eins og hér er lagt til, lögformlegt mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar. Hér eru slíkir hagsmunir í húfi að um þetta þurfa allir að geta fjallað og komið að á einhvern hátt. Það verður ekki tryggt með öðru móti. Og með tilliti til fyrri yfirlýsinga sem hér var vitnað til áðan, yfirlýsinga hv. 11. þm. Reykv. sem er formaður hv. umhvn., verður að treysta því að þessi tillaga fái skjóta og jákvæða afgreiðslu í hv. umhvn.