Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:27:09 (310)

1998-10-12 17:27:09# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:27]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér var ég ekki að kalla neinn til ábyrgðar um það hvað gerðist í fortíðinni. Mér fannst hins vegar rétt við þessa umræðu að rifja upp hvernig að þessu hafði verið staðið áður fyrr og það er auðvitað óhjákvæmilegt að rifja það upp hvernig að þessari leyfisveitingu á sínum tíma var staðið þar sem menn eru núna að tala um að taka hana af. Þá verða menn líka að gera sér grein fyrir því hvernig hún kom til og það kann vel að vera að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir eigi erfitt með að kyngja þeim sannleika sem í því fólst.

Hv. þm. var hins vegar á algerum villigötum í ræðu sinni og áttar sig ekki á því einu sinni hvernig lögin um mat á umhverfisáhrifum eru. Í fyrsta lagi er það skýrt í lögum um mat á umhverfisáhrifum að framkvæmdaaðilinn á að sjá um undirbúninginn á mati á umhverfisáhrifum. Það liggur alveg fyrir. Hvort sem það er Landsvirkjun eða einhver annar þá gera lögin ráð fyrir því að framkvæmdaaðilinn eigi að sjá um slíkt og það er það sem Landsvirkjun hefur verið að gera og hefur verið að undirbúa með eðlilegum hætti og alveg í samræmi við það hvernig að því er staðið eins og lögin gera ráð fyrir. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að segja: ,,Það er óeðlilegt.`` Lögin gera ráð fyrir þessu og ef hv. þm. vildi einhverju breyta í þeim efnum þá er auðvitað að breyta því í þinginu.

Ég held að það sé heldur ekki umdeilt að Alþingi veitti heimildina og að það er Alþingis að taka þessa heimild aftur af Landsvirkjun ef það á að gera. Það er ekki framkvæmdarvaldsins og það er ekki framkvæmdarvaldsins eins að taka ákvörðun um það. Hitt er svo aftur annað mál að það er framkvæmdarvaldsins hugsanlega að flytja tillögur um að slíkt skuli gert. Og það sem ég var að deila á varðandi þessa þáltill. er að ég tel hana ekki vera komna fram á réttum tíma vegna þess að ekki er enn þá farið að reyna á það í hvaða farveg málið muni fara. Ef það fer ekki í þann farveg sem mönnum sýnist að sé skynsamlegur, þ.e. að ekki séu nýttar kæruheimildir og aðkoma almennings að málinu, þá fyrst væri eðlilegt að flytja mál eins og þetta og á það var ég að deila.