Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:50:40 (317)

1998-10-12 17:50:40# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:50]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í raun ekki miklu við það að bæta sem ég sagði áður þrátt fyrir þetta andsvar hv. þm. Aðeins um lokasetningu hans hvað líði endurskoðun á lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Ég reyndar greindi frá því aðeins áðan að hún hefur staðið nokkuð lengi, í raun frá því við vorum að samþykkja hér byggingar- og skipulagslögin sem endurskoðun átti að fylgja, eins og hv. þm. greindi frá í fyrri ræðu sinni en varð ekki. Endurskoðunin hefur nú staðið yfir í eitt ár eða á annað ár kannski, ég man það ekki nákvæmlega hvenær það starf var sett af stað, en nú liggja fyrir drög að frv. sem hafa verið send til málsaðila til lestrar og skoðunar, þeirra sem við töldum að málið varðaði, til að kalla eftir viðbrögðum og athugasemdum og ég vonast til að ekki líði margar vikur þar til ég get lagt það frv. fyrir hv. Alþingi, a.m.k. fyrir áramót. Ég treysti því að það verði á þessu ári.