Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:52:02 (318)

1998-10-12 17:52:02# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:52]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Þetta stóra mál og staða þess ætti að hafa skýrst nokkuð við umræðuna. Eins og málið liggur eftir yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum tel ég alveg ljóst að vilji hæstv. umhvrh. sé sá sem ráðherrann skýrði frá í yfirlýsingum á miðju sumri, að þessi framkvæmd ætti að fara að lögum um mat á umhverfisáhrifum, en framkvæmdin er hins vegar að formi til undanþegin lögunum, og það er það sem stendur út af og er ástæðan fyrir flutningi þeirrar tillögu sem hér er til umræðu.

Ég vil taka upp einn þátt sem lesa má út úr grg. með frv. vegna þess að hann er þýðingarmikill og snertir stöðu þessa máls með tilliti til þess svæðisskipulags sem nú liggur fyrir tillaga um frá sérstakri svæðisskipulagsnefnd. Það er ferli sem hefur verið í gangi á vegum hæstv. umhvrh. um lengri tíma og er að nálgast lokastig sem er mjög þýðingarmikið. Ég vænti þess og treysti því raunar að hæstv. ráðherra nái að koma því máli í höfn á starfstíma sínum, sem er ekki mjög langur fram undan en gæti væntanlega orðið allt til loka kjörtímabilsins. Ég held það væri jákvætt fyrir ýmis mál sem hæstv. umhvrh. hefur verið að vinna að, að hann hafi aðstæður til að nýta veturinn á enda til að koma þeim málum í höfn og eitt af því er svæðisskipulagstillagan.

Þannig er að þegar tillögur voru mótaðar á sínum tíma af samvinnunefndinni og lagðar fram til umsagnar lá frammi tiltekið orðalag, skilningur og uppdrættir varðandi einmitt virkjanir norðan Vatnajökuls og Fljótsdalsvirkjun sérstaklega, og ætla ég ekki að vitna í það orðalag, þ.e. þessa upphaflegu tillögu, það hafa menn á bls. 3 í þskj. Síðan komu fram ýmsar athugasemdir við þessa tillögu, m.a. frá orkuaðilum en einnig frá öðrum, og nú liggur fyrir lokatillaga svæðisskipulagsnefndarinnar. Í umsögn hennar í ágúst 1998 um innsendar athugasemdir eftir auglýsingu 6. júní til 10. desember 1997, segir svo um Fljótsdalsvirkjun og raunar einnig um Norðlingaölduveitu, með leyfi forseta:

,,Heimild samvinnunefndarinnar til þess að setja fyrirvara um útfærslur einstakra stórframkvæmda á borð við virkjanir snýr að ýmsum grundvallaratriðum skipulagsvinnu. Andi skipulagslaganna er að hlutverk svæðisskipulags sé að samræma og samþætta mismunandi hagsmuni í landnotkun. Nefndin telur að eðlilegt sé að endurmeta 15 ára gömul áform með tilliti til breyttra forsendna, m.a. nýrrar tækni og breyttra viðhorfa til umhverfismála. Gert er ráð fyrir að bæði Fljótsdalsvirkjun og Norðlingaölduveita geti komið til framkvæmda á skipulagstímanum í einhverri mynd. Gerðir eru fyrirvarar um stærð miðlunarlóna á gróðurlendum í 600 m yfir sjávarmáli sem eru meðal stærstu fuglabyggða hálendisins. Á landnotkunaruppdráttum 2 og 3 eru annars vegar sýnd náttúruverndarsvæði og hins vegar orkuvinnslusvæði. Á Eyjabakkasvæðinu koma báðir þessir landnotkunarflokkar við sögu sem er í samræmi við skipulagsuppdráttinn, þ.e. blönduð landnotkun.``

Samkvæmt þessari tillögu er það augljós vilji samvinnunefndarinnar að fram fari endurskoðun á virkjunaráformum sem snerta Eyjabakkasvæðið, og gerðar eru tillögur um og ég hef lesið hvernig orðaðar eru. Þetta er auðvitað mjög þýðingarmikið atriði sem endurspeglar þá breyttu stöðu þessara mála almennt sem fyrir liggur. Hér liggja fyrir tillögur frá nefnd sem fékk kannski ekki allt of góð orð í umræðum á síðasta þingi, en sem ég held að mönnum sé ljóst að hefur að mörgu leyti tekið tillit til breyttra viðhorfa í samfélaginu til landnotkunarmála á hálendi Íslands, og það endurspeglast m.a. í þessum tilvitnuðu orðum sem ég fór áðan með. Ég vil líka vekja athygli á því að hæstv. utanrrh. sá ástæðu til þess í umræðu í þinginu 1. okt. sl. að víkja sérstaklega að þessari vinnu að svæðisskipulagi og leggja áherslu á það sem mikilvægan þátt í starfi að umhverfismálum á undanförnum árum. Það voru viðbrögð hæstv. utanrrh. við orðum sem ég lét falla í þeirri umræðu. Ég tók eftir þeim og taldi það vera jákvætt að af hálfu hæstv. utanrrh. kom fram, eins og skilja mátti á orðum hans, eindreginn stuðningur við að þessi tillaga að svæðisskipulagi næði fram að ganga. Hún væri mikilsvert innlegg af hálfu þeirrar vinnu sem fram hefur farið hjá hæstv. umhvrh.

Ég vil einnig, virðulegur forseti, benda á þau viðhorf sem koma fram í samþykktum sveitarstjórna á Austurlandi, þótt ekki séu einróma, það ber vissulega nokkuð á milli. Það sem síðast gerðist í því máli með ályktun fulltrúa sveitarstjórnar á Austurhéraði skiptir verulegu máli, a.m.k. fyrir þá sem eru að horfa á þetta mál álengdar og meta stöðu þess. Ég er líka sammála því sem hefur komið fram í ágætu máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur og kom fram í máli Árna Steinars Jóhannssonar, að menn ættu að skoða þessi mál í enn víðara samhengi og endurmeta þær hugmyndir sem uppi hafa verið um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi, sem greinilega koma inn í þetta mál og stöðu þess.

[18:00]

Mér dylst a.m.k. ekki, virðulegur forseti, að sá leikur --- svo ég noti orðið leikur sem kannski er ekki rétt um svo alvarlegt mál --- sú málafylgja skulum við kalla það sem hæstv. iðnrh. hefur hér uppi í þessu máli, tengist greinilega tilraunum til þess að semja um stóriðju á Austurlandi, samningum sem fram fara á vegum ráðuneytis hæstv. iðnrh.

Ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. hugsi sem svo: Ja, þegar á veturinn líður og ekki er lengur hægt að draga það að gera þetta mál upp, á þetta að fara eftir lögformlegum farvegi um mat á umhverfisáhrifum eða ekki? Nú, það getur farið eftir því hver staðan er varðandi samninga um stóriðju á Austurlandi. Ég held að það sé hugsunin sem býr að baki hjá hæstv. iðnrh. Það hefur raunar komið fram hjá hæstv. utanrrh. líka hver hugsunin er í þessum efnum.

Ég vil eindregið ráða frá því að málið verði skoðað út frá þessu sjónarhorni. Ég fullyrði, virðulegur forseti, að það yrði ófriður um þetta mál ef menn ætluðu að keyra það fram í tengslum við stóriðjuáform á Austurlandi án þess að hafa eðlilegt svigrúm til að láta reyna á þann farveg sem markaður er í lögum um mat á umhverfisáhrifum að því er varðar ekki aðeins iðnaðaráformin heldur sjálf virkjunaráformin. Því fyrr sem hæstv. ráðherrar, sem áhuga hafa á því að úr framkvæmdum við stóriðju verði á Austurlandi, gera sér þetta ljóst, þeim mun vænlegra er að einhver friður skapist um þessi mál.

Mín skoðun er sú að það verði mjög erfitt að vinna því fylgi að ráðast í stóriðjuframkvæmdir, hvort sem það væri á Austurlandi eða suður á Keilisnesi, sem einnig hefur verið í skoðun í tengslum við þessi efni af hálfu Norsk Hydro, að það verði mjög erfitt að skapa frið um að fórna þeim náttúruverndarhagsmunum sem æ fleiri gera sér ljóst að tengjast þessum málum, í þágu frekari áliðnaðar í landinu. Ég vil hvetja til þess, virðulegur forseti, að m.a. í tengslum við endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum, verði markaður sá farvegur að þessi mál verði skoðuð í miklu víðara samhengi en gert er ráð fyrir í gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ég vil að farið verði yfir frumáætlanir varðandi virkjanir og mynstur virkjana sem verið hafa á borðum manna á Austurlandi og raunar á landinu öllu, allar götur frá árinu 1969 eða 1970, að fyrstu skýrslurnar og áætlanirnar komu um nýtingu jökulánna á Austurlandi til virkjana. Við höfum þörf á að tileinka okkur þau viðhorf sem orðin eru ráðandi í nágrannalöndum okkar og Vestur-Evrópuríkjum, að áætlanastigið verði hluti af mati á umhverfisáhrifum.

Það segir sig sjálft að það er óskynsamlegt að ráðast fyrst í slíkt mat þegar menn eru búnir að byggja upp áætlanir og væntingar um nýtingu orkunnar og binda sig meira og minna í báða skó í sambandi við framkvæmdirnar þegar að þessu ferli kemur. Þó er því ætlað að vera farvegur fyrir borgarana til að hafa áhrif á þróun mála.

Ég vænti þess að hæstv. umhvrh. hlutist til um, ef það er ekki nú þegar í sambandi við endurskoðun þessara laga, að þannig verði á málum tekið að skipulagsstigið sjálft verði hluti af mati á umhverfisáhrifum, sem fyrsta stig á slíku mati til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld þegar kemur að framkvæmdahugmyndum.

Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að taka upp umræðu um liðna tíða og það sem var á borðum manna í þessari virðulegu stofnun fyrir tuttugu árum. Út af fyrir sig væri full ástæða til að ræða það og ég skorast ekkert undan því. Af því mætti læra margt. Ég tel sjálfur að ég hafi nokkuð af því lært og það mættu fleiri gera.

Í þessu sambandi vil ég þó benda á, vegna þess að hér er talað um rétt í sambandi við heimildir til virkjana, að í aðdraganda ákvarðana Alþingis um heimildir til virkjana, margra virkjana sem gerðar voru með lögum um raforkuver 1981, þá afturkallaði sá iðnrh., sem sat á stóli veturinn 1979 og fram á árið 1980, heimild til virkjunar sem gefin hafði verið á grundvelli gildandi laga. Sá ágæti ráðherra var Bragi Sigurjónsson, nú látinn, en hann afturkallaði leyfi sem byggði á lögum frá árinu 1974 að mig minnir og fordæmið fyrir slíkri afturköllun er frá þessum tíma. Minnt hefur verið á það nokkrum sinnum í tengslum við þessa umræðu, stundum kennt við Jón Sigurðsson, fyrrv. iðnrh., af misskilningi. Það sem menn eru í raun að vitna til er gjörð Braga Sigurjónssonar í öndverðum nóvember 1979, sem afturkallaði virkjunarleyfi sem veitt hafði verið samkvæmt gildandi lagaheimild. Ég tel rétt að nefna þetta hér til umhugsunar fyrir hæstv. iðnrh. ef hann vill taka á málinu eftir þeim leiðum.

Ég vil svo að endingu segja, virðulegur forseti: Sé það mat framkvæmdarvaldsins að nauðsynlegt sé að breyta lögum til þess að setja málin í lögformlegan farveg varðandi mat á umhverfisáhrifum þá er að gera það. Ég tel að ekki sé eftir neinu að bíða. Ef sú staða er uppi og það er mat ríkisstjórnar að breyta þurfi lögum, þá er að breyta lögunum.