Minning Ástu B. Þorsteinsdóttur

Þriðjudaginn 13. október 1998, kl. 13:32:04 (320)

1998-10-13 13:32:04# 123. lþ. 8.92 fundur 56#B minning Ástu B. Þorsteinsdóttur#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 123. lþ.

[13:32]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Við alþingismenn söknum nú eins úr okkar hópi. Ásta B. Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og alþingismaður, andaðist í gær, mánudaginn 12. október. Hún var fimmtíu og tveggja ára að aldri.

Ásta B. Þorsteinsdóttir var fædd í Reykjavík 1. desember 1945. Foreldrar hennar voru hjónin Þorsteinn Þorsteinsson sjómaður og fisksali og Ásdís Eyjólfsdóttir húsmóðir og skrifstofumaður. Að loknu gagnfræðaprófi í Reykjavík árið 1962 var hún vetrarlangt í framhaldsskóla í Bandaríkjunum og síðar við nám í Hjúkrunarskóla Íslands, lauk hjúkrunarfræðiprófi 1968. Eftir það nam hún og stundaði skurðhjúkrun á Íslandi og í Danmörku. Framhaldsnám í hjúkrunarstjórn stundaði hún við Nýja hjúkrunarskólann. Hún vann á Borgarspítalanum, á sjúkrahúsi í Árósum í Danmörku og á Landspítalanum, lengst af við skurðhjúkrun. Frá 1988 var hún hjúkrunarframkvæmdastjóri Landspítalans.

Við alþingiskosningarnar 1995 var Ásta B. Þorsteinsdóttir kjörin varaþingmaður Alþýðuflokksins í Reykjavík. Hún tók fjórum sinnum varamannssæti á þremur þingum 1995--1997. 1. janúar síðastliðinn varð hún alþingismaður Reykvíkinga við afsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar. Nú í haust var hún hér í upphafi fjórða þings kjörtímabilsins.

Ástu B. Þorsteinsdóttur voru falin ýmis félags- og nefndastörf. Hún var í stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar frá 1985, formaður frá 1987. Fulltrúi Þroskahjálpar í stjórn Norrænna samtaka foreldra fatlaðra var hún 1990--1997. Hún var kjörin varaformaður Alþýðuflokksins í nóvember 1996 og var endurkjörin nú í haust.

Ástu B. Þorsteinsdóttur entist ekki heilsa til langrar setu á Alþingi, vannst ekki langur tími til að sinna hér áhugamálum sínum. Auk stefnumála um jöfnuð og jafnrétti beindist áhugi hennar að heilbrigðismálum hvers konar. Hún þekkti vanda sjúkra og fatlaðra og fylgdi fast eftir umbótum á lífskjörum og aðstöðu þeirra. Með söknuði er hennar minnst.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Ástu B. Þorsteinsdóttur með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]