Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 13:45:31 (326)

1998-10-14 13:45:31# 123. lþ. 10.1 fundur 28. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir að spyrja enn einu sinni, sennilega þriðja þingið í röð um þetta mál, hvernig menn ætla að snúa sér í málum varðandi hrefnuveiðar. Ég vil segja það hér að líklega hefur það verið röng ákvörðun á sínum tíma þegar Íslendingar gengu úr Alþjóðahvalveiðiráðinu með tilliti til þess sem þróunin hefur verið í þeim málum. Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. sjútvrh. til að endurskoða ákvarðanir varðandi hvalveiðar og ég tel að hefja eigi hvalveiðar hið fyrsta. Ég er þar með í þeim hluta 80% þjóðarinnar sem vilja hefja hvalveiðar nú þegar. Ég segi þetta vegna þess að ég tel að nauðsynlegt sé fyrir okkur Íslendinga að nýta alla þá möguleika sem við eigum varðandi afkomu okkar, þar með taldar hvalveiðar.