Hrefnuveiðar

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 13:46:30 (327)

1998-10-14 13:46:30# 123. lþ. 10.1 fundur 28. mál: #A hrefnuveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Auðvitað á að leyfa hrefnuveiðar og þó fyrr hefði verið. Það mælir allt með því. Ég minni á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár þar sem lagt er til í ljósi úttektar vísindanefndar NAMMCO að aflamarkið verði 250 hrefnur á ári. Nú hefur borist nýrra álit frá NAMMCO í september á þessu ári þar sem stjórnunarnefndin samþykkir að veiði 292 dýra á ári væri sjálfbær. Það hníga því öll rök að því að við hefjum þessar veiðar.

Það sem sjálfsagt hefur staðið í mönnum eru hótanir erlendra aðila og þá kannski fyrst og fremst Bandaríkjamanna. En ég minni á að þegar Norðmenn hófu hrefnuveiðar sínar að nýju fyrir 5--6 árum sátu þeir undir svipuðum hótunum. Þeim var hótað viðskiptaþvingunum, takmörkun á ferðamannastraumi o.fl. en ekkert af þessu gekk eftir. Útflutningur þeirra stórjókst eftir að hvalveiðarnar hófust, ferðamannastraumur jókst og meira að segja hefur aðsókn í hvalaskoðunarferðir meira en tvöfaldast á þessu tímabili. Menn mega ekki skjálfa allt of mikið fyrir slíkum hótunum, og við eigum að taka þessa ákvörðun.

Ég minni svo á að fyrr í vikunni var lögð fram á Alþingi till. til þál. sem ég flyt ásamt ellefu öðrum þingmönnum um að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með næsta ári á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til og það er auðvitað á valdi Alþingis að samþykkja tillöguna og heimila þessar veiðar.