Smíði varðskips

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 13:56:55 (332)

1998-10-14 13:56:55# 123. lþ. 10.3 fundur 30. mál: #A smíði varðskips# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[13:56]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa mikilli ánægju með það sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. að ríkisstjórnin skuli hafa tekið ákvörðun um að þetta skip verði smíðað á Íslandi. Iðnn. Alþingis hefur fjallað nokkuð um þetta mál og við höfum verið mjög áhugasamir um að niðurstaðan yrði þessi. Staðreyndin er að skipasmíðaiðnaður á Íslandi er á talsverðri uppleið eftir mjög langt erfiðleikatímabil en hann vantar tilfinnanlega nýsmíði, bæði til að auka stöðugleika í verkefnastöðu skipasmíðastöðvanna og treysta rekstur þeirra, og eins til að viðhalda þeirri þekkingu og reynslu sem enn er til staðar í skipasmíðaiðnaði á Íslandi, þekkingu sem við megum alls ekki týna niður.

Síðastliðin tíu ár hefur nær engin nýsmíði verið í íslenskum skipasmíðastöðvum, aðeins örfáir litlir fiskibátar og einn hafnsögubátur. Hér er hins vegar á ferðinni mjög stórt verkefni sem verður samstarfsverkefni skipasmíðastöðvanna og ég treysti þeim mjög vel til að leysa það farsællega af hendi því að það er staðreynd að þau stálskip sem voru smíðuð hér á áttunda og níunda áratugnum hafa reynst mjög vel og engin ástæða til að ætla annað en að svo verði einnig með varðskipið.

En ég ítreka að ég lýsi mikilli ánægju með það sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. um ákvörðun ríkisstjórnar.