Gjafsóknir

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:06:59 (341)

1998-10-14 14:06:59# 123. lþ. 10.4 fundur 54. mál: #A gjafsóknir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:06]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla að svara þessum þremur spurningum í einu lagi samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja um gjafsóknarleyfi. Það er rétt að taka fram áður að gjafsókn er ekki veitt vegna opinberra mála þannig að gjafsókn tekur einvörðungu til einkamála.

Árið 1996 mælti gjafsóknarnefnd með gjafsókn í 204 málum. Hún mælti gegn gjafsókn í 118 málum sem um hafði verið sótt.

Árið 1997 mælti nefndin hins vegar með gjafsókn í 184 málum en gegn gjafsókn í 118 málum.

Ástæða fyrir veitingu gjafsóknar árið 1996 var fjárhagsstaða umsækjenda í 112 tilvikum. Í 38 tilvikum var um lögbundna gjafsókn að ræða. Í 23 tilvikum vörðuðu málsúrslit atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda og í fjórum tilvikum hafði úrlausn máls verulega almenna þýðingu. 27 tilvik hafa ekki verið flokkuð sérstaklega eða falla undir tvo eða fleiri af framangreindum flokkum.

Ástæða fyrir veitingu gjafsóknar árið 1997 var fjárhagsstaða umsækjenda í 103 tilvikum. Í 33 tilvikum var um lögbundna gjafsókn að ræða. Í 11 tilvikum vörðuðu málsúrslit atvinnu, félagslega stöðu eða einkahagi umsækjenda og í fimm tilvikum hafði úrlausn máls verulega almenna þýðingu. En 32 tilvik á því ári hafa ekki verið flokkuð sérstaklega eða falla undir tvo eða fleiri af framangreindum flokkum.