1998-10-14 14:16:32# 123. lþ. 10.5 fundur 60. mál: #A ályktun fulltrúa ESB- og EES-ríkja um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmrh. hengir sig í formið. Hann vill ekki lýsa neinum skoðunum á þeim sjónarmiðum sem fram komu á þessum vettvangi, frá forstöðumönnum þeirra sem fara með skráningu persónuupplýsinga í þessum löndum. Hæstv. dómsmrh. er nú einu sinni vörslumaður laganna um skráningu persónuupplýsinga frá 1981 sem boðað er að eigi að endurskoða. Ég hélt að hæstv. ráðherra hlyti að hafa skoðun á því hvort rök væru fyrir ályktuninni eða hvort hann hafni þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Við höfum lesið það í Morgunblaðinu sem lagði spurningu fyrir hæstv. ráðherra 8. október sl., með leyfi forseta. Þar svarar hæstv. ráðherra með þessum orðum:

,,Mér finnst ekki viðeigandi að þessi samkoma sé að skipta sér af innanríkismálum Íslendinga og hef ekki meira um þetta að segja.``

Er það þetta sem vænta má af hálfu íslenskra yfirvalda í tengslum við frv. um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði? Eigum við von á sendingum af þessum toga frá hæstv. heilbrrh., hæstv. dómsmrh. og ríkisstjórninni í heild? Skiptir engu máli hvað hæstv. ríkisstjórn hefur skrifað undir og staðið að samþykktum á á erlendum vettvangi í sambandi við þessi mál? Hefur hæstv. dómsmrh. enga skoðun á því hvort þessir trúnaðarmenn hafi ástæðu til að lýsa áhyggjum sínum? Er ekki ástæða til fyrir hæstv. ráðherra hér á vettvangi Alþingis að reyna að svara efnislega en hengja sig ekki í form? Mér finnast þetta alveg dæmalaus viðbrögð af hálfu hæstv. ráðherra og ef þetta á að verða rauði þráðurinn í umræðunni um málið, sem verður væntanlega á dagskrá á morgun, þá stendur nú enn þá verr í bólið hjá hæstv. ríkisstjórn en ég hafði reiknað með.