1998-10-14 14:18:53# 123. lþ. 10.5 fundur 60. mál: #A ályktun fulltrúa ESB- og EES-ríkja um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þó það sé ekki til umræðu lít ég svo á að frv. sem lagt hefur verið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar um gagnagrunn fullnægi alþjóðlegum skuldbindingum okkar. Við höfum sérstaka stofnun, tölvunefnd, sem starfar samkvæmt sérstökum lögum og hennar hlutverk er að leggja mat á það hvort íslenskum lögum og íslenskum skuldbindingum sé fullnægt.

Í fyrsta lagi minni ég á að sú samkoma sem hv. þm. er að spyrjast fyrir um hefur ekkert alþjóðlegt vald. Í öðru lagi skil ég ekki hinn sérstaka áhuga hv. þm. á að beygja sig frekar undir álit einhverrar erlendrar stofnunar. Hann vill lúta einhverju erlendu valdi í þessu og treystir ekki þeim íslensku stofnunum sem við höfum sett á fót til að starfa samkvæmt íslenskum lögum. Ég hefði trúað hv. þm., í ljósi málflutnings hans á undanförnum árum, til að leggja meiri áherslu á að það er Íslendinga að taka afstöðu til þessa og algert aukaatriði hvað einhver samráðsfundur framkvæmdastjóra tölvunefnda í Evrópu ályktar. Sem betur fer hefur sú samkoma ekkert yfirþjóðlegt vald sem við þurfum að beygja okkur fyrir.