Fangaverðir

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:20:39 (348)

1998-10-14 14:20:39# 123. lþ. 10.6 fundur 88. mál: #A fangaverðir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir fyrirspurn minni er sú að ég las nýlega viðtöl í erlendu blaði, við konur sem gegna stöðum fangavarða á karladeildum í San Quentin-fangelsinu í Bandaríkjunum. Þar sitja bak við lás og slá margir hættulegustu fangar Bandaríkjanna en stefna stjórnvalda þar vestra er að fjölga konum í röðum fangavarða, bæði vegna ákvæða jafnréttislaga og vegna þess að það þykir hafa gefist vel að hafa konur innan um karlkyns fanga þótt því fylgi vissulega hættur. Ég þekki ekki stefnu stjórnvalda í öðrum löndum en Bandaríkjunum en fýsir að vita hvernig þessum málum er háttað hér á landi og hver stefna stjórnvalda er í þessum efnum. Því spyr ég hæstv. dómsmrh. eftirfarandi spurninga:

1. Hversu margar konur gegna nú störfum fangavarða:

a. í fangelsum fyrir karla,

b. í fangelsum fyrir konur,

c. á lögreglustöðvum þar sem er skammtímavistun fanga?

2. Hvert er hlutfall kvenna af fjölda fangavarða?

3. Er það stefna ráðherra að fjölga konum í röðum fangavarða, bæði við gæslu karla og kvenna?