Fangaverðir

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:21:58 (349)

1998-10-14 14:21:58# 123. lþ. 10.6 fundur 88. mál: #A fangaverðir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Fangelsismálastofnun eru aðstæðurnar þannig að í fangelsum fyrir karla eru nú átta konur á skrá sem fangaverðir. Þrjár í fangelsi þar sem konur afplána dóma og sex í fangageymslum lögreglunnar í Reykjavík.

Sem svar við annarri spurningunni get ég gefið þær upplýsingar að til starfa eru skráðir 99 fangaverðir og þar af eru 17 konur, eða um 17%.

Fangelsismálastofnun fylgir þeirri stefnu að ráða fleiri konur til starfa við fangavörslu en því miður hafa, í a.m.k. tveimur síðustu auglýsingum um fangavarðarstörf, einungis komið umsóknir frá körlum. Þessa stefnu Fangelsismálastofnunar styður ráðuneytið heils hugar og væntir þess að hún beri meiri árangur en síðustu auglýsingar gefa tilefni til að ætla.