Fangaverðir

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:23:23 (350)

1998-10-14 14:23:23# 123. lþ. 10.6 fundur 88. mál: #A fangaverðir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessi svör. Ef ég hef skilið hann rétt starfa engar konur sem fangaverðir á Litla-Hrauni þar sem eingöngu karlmenn dvelja eftir því sem ég best veit. Hins vegar eru þær í Kvennafangelsinu og á lögreglustöðinni hér í Reykjavík. Hlutfallið sem hér kemur fram er kannski ekki svo ýkja slæmt en mætti þó vera hærra.

Við vitum að nú standa yfir launadeilur meðal fangavarða. Margir þeirra eru ákaflega óánægðir með kjörin en ég hygg þó að hið hefðbundna starfsval kvenna ráði því að þær sækja ekki inn í þessar stöður. Samkvæmt því sem ég hef lesið og nefndi hér áðan geta konur haft góð áhrif á karlkyns fanga. Það er öðruvísi að hafa konur innan fangelsismúranna. Þær tala öðruvísi við karlkyns fanga og eftir því sem kemur fram í þessum viðtölum hafa margir hættulegir fangar trúað konunum fyrir ýmsu sem þeir hafa ekki rætt við karlkyns fangaverði.

Það virðist vera til bóta að ráða konur sem fangaverði og ég hlýt að hvetja hæstv. dómsmrh. og fangelsisyfirvöld til að reyna betur í þessum málum. Spurningin er hvað hægt er að gera til að sýna konum fram á að þær eigi jafnmikið erindi í þessi störf og flest önnur.