Endurskoðun hjúalaga

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:41:28 (358)

1998-10-14 14:41:28# 123. lþ. 10.8 fundur 48. mál: #A endurskoðun hjúalaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir undirtektirnar og ég segi honum það að ég get alveg lofað honum því að ég kem þá bara með frv. á þessu þingi því það er voðalega einfalt, satt að segja, að flytja frv. um breytingar á þessum lögum en halda þó þeim réttindagreinum sem eru hér inni með því að breyta lögunum um rétt verkafólks við uppsagnir, lögunum frá 1979. Það er tiltölulega einfalt. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa þessi lög í smáatriðum því að þau eru alveg óþrjótandi skemmtiefni miðað við nútímann því að það eru svo ótrúlegir hlutir sem þarna standa.

Satt að segja var það þannig að eftir að ég flutti þessa fyrirspurn þá kom upp mál sem kennt er við rússneskt fyrirtæki sem heitir Technopromexport og gáfaðir menn bentu mér á að félmrn. mundi hafa stuðst við þau lög þegar það var að fjalla um það mál. Ég hygg nú að svo hafi ekki verið. Engu að síður þá voru þau nefnd í því samhengi og það er nokkurt umhugsunarefni að þetta mál, Technopromexport, skuli ekki hafa verið rætt á Alþingi, svo mikla umfjöllun sem það hefur fengið, m.a. framganga stjórnvalda í því máli og gagnrýni verkalýðsforustunnar og ýmissa aðila á vinnubrögð stjórnvalda.

En látum það vera. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þessi lagaákvæði þarf að laga og það er einfalt mál fyrir þingmenn að beita sér fyrir því að það verði gert.