Ár aldraðra

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:43:51 (359)

1998-10-14 14:43:51# 123. lþ. 10.9 fundur 32. mál: #A ár aldraðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. um ár aldraðra. Fyrirspurnin er á þessa leið:

,,1. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera í tilefni af ári aldraðra?

2. Hefur verið haft samráð við samtök aldraðra í tilefni af ári aldraðra?

3. Verður haft samráð við samtök launafólks og lífeyrissjóðina um ár aldraðra?

4. Verður um þverpólitískt samstarf að ræða með fulltrúum allra flokka?

5. Hvenær mun ríkisstjórnin kynna Alþingi áætlanir sínar í tilefni af ári aldraðra?``

Eins og kunnugt er er það ákvörðun Sameinuðu þjóðanna að næsta ár, árið 1999, verði tileinkað málefnum aldraðra. Ég hygg að það sé í annað sinn í sögu samtakanna að slíkt ár er ákveðið á þeirra vegum. Þegar ár aldraðra var haldið síðast var efnt til ýmissa aðgerða af hálfu stjórnvalda. Þá voru t.d. undirbúin lögin um málefni aldraðra. Þá voru sett lögin um Framkvæmdasjóð aldraðra sem munaði mjög mikið um og tókst með þeim að byggja upp stofnanir fyrir aldraða í talsverðum mæli víðs vegar í landinu.

[14:45]

Á ári aldraðra voru því teknar ákvarðanir sem mörkuðu mikilvæg framfaraskref í hagsmunamálum aldraðra landinu. Og fyrirspurnin er ekki síst borin fram til að hvetja hæstv. heilbrrh. til að nota tækifærið, nota ár aldraðra til að reisa upp fána í málefnum aldraðra, því eins og eðlilegt er þarf enn mjög margt að gera.

Ég vil í þessu sambandi m.a. minna á þær ábendingar sem birst hafa frá Landssambandi eldri borgara sem hefur sent frá sér sérstakt bréf í þessum efnum, þar sem fjallað er um kjör aldraðra, lífeyri aldraðra, lífeyrissjóðina, Tryggingastofnunina og skort á hjúkrunarrýmum sem sérstöku viðfangsefni. Ég vil einnig af þessu tilefni rifja upp --- ég hygg að það hafi verið í þessari viku að mig minnir --- að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson spurði hvað liði endurskoðun laganna um málefni aldraðra. Í máli hæstv. ráðherra kom þá fram að drög að frv. hefðu legið tilbúin mjög lengi í ráðuneytinu en ekki yrði tilbúið að leggja frv. fram fyrr en eftir tvo mánuði, ef ég man rétt það sem hæstv. ráðherra sagði. Mér finnst satt að segja alveg ótrúlegt hvað það tekur langan tíma að endurskoða þessi lög. Mér er auðvitað ljóst að ýmsir sérfræðingar sem svo eru kallaðir og eru á sviði öldrunarmála telja óþarft að hafa nokkur sérstök lög um málefni aldraðra vegna þess að í raun og veru eigi að samþætta málefni aldraðra annarri félagsmálalöggjöf. Um það má margt segja og tími minn til að fjalla um það er nú útrunninn, en ég vænti þess að hæstv. ráðherra sjái sér fært að svara þessum spurningum jákvætt, þannig að það gæti orðið upphaf að líflegri umræðu um málefni aldraðra á þessu þingi.