Ár aldraðra

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:55:26 (362)

1998-10-14 14:55:26# 123. lþ. 10.9 fundur 32. mál: #A ár aldraðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:55]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir ágætar ábendingar, en hann fór aðeins yfir sviðið. Fyrst og fremst vil ég ræða um ný lög um málefni aldraðra. Það er rétt, ég sagði í fyrirspurnartíma fyrir tveim dögum að málið hefði verið í langri endurskoðun og þegar við ætluðum að leggja það fyrir Alþingi fengum við ýmsar ábendingar og athugasemdir sem mér finnst rétt að taka tillit til áður en frv. verður lagt fyrir þingið, en það verður gert á ári aldraðra.

Varðandi þau hjúkrunarrými sem vantar tilfinnanlega á Reykjavíkursvæðinu munum við á næsta fjárlagaári bæta við 120--130 hjúkrunarrúmum fyrir einstaklinga sem eru í brýnni þörf og þá verður ekki lengri bið en 90 dagar eftir hjúkrunarrúmi eftir það. Það er mjög mikilvægt atriði, þannig að við höfum sett okkur þessi markmið á ári aldraðra að koma til móts við brýna þörf varðandi hjúkrunarrými.

Við erum að vinna með Samtökum aldraðra að stefnumótun og ég vil benda á heimasíðu ráðuneytisins og bækling sem við höfum gefið út í tilefni af ári aldraðra þar sem ýmislegt kemur fram sem verið er að vinna að. En varðandi það að hv. þm. þyki rétt að pólitískir aðilar komi að þessu, þá eru margir ágætir aðilar sem eru að vinna að þessum málum og ég held við getum verið sammála um menn eins og Benedikt Davíðsson sem er í framkvæmdastjórn, þannig að ég held að þarna sé vel skipað.