Eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 14:57:27 (363)

1998-10-14 14:57:27# 123. lþ. 10.10 fundur 52. mál: #A eignarréttur á upplýsingum í sjúkraskrám# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fsp. mín til hæstv. heilbrrh. á þskj. 52 varðar eignarrétt á upplýsingum í sjúkraskrám. Hún er svohljóðandi:

,,Er ráðherra samþykkur því, með tilliti til umfjöllunar Alþingis um frumvarp til laga um réttindi sjúklinga (260. mál á 121. löggjafarþingi) og ákvæða laga nr. 74/1997, að hver sjúklingur eigi þær upplýsingar í sjúkraskrá sem hann varða og hann hefur látið heilbrigðisstarfsmönnum í té?``

Fsp. þessi vísar til þess að við umfjöllun um frv. til laga um réttindi sjúklinga, 260. mál á næstliðnu löggjafarþingi, var gerð breyting frá stjfrv. þess efnis að felld voru niður ákvæði um eignarrétt heilbrigðisstofnana á sjúkraskrám. Þetta er gert með ótvíræðum hætti og kemur fram í framsögu formanns nefndarinnar, hv. 9. þm. Reykv., formanns heilbr.- og trn. sem kveður svo á að það sé sjónarmið nefndarinnar að baki þessu að upplýsingarnar í sjúkraskránum séu eign sjúklinganna, og það er rétt að ég vitni til framsögunnar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Tel ég með öðrum orðum að það sé siðferðilega ekki hægt að segja að sjúkraskrá sem felur í sér sjúkrasögu einstaklings sé eign einhvers annars heldur en viðkomandi sjúklings.``

Og áfram segir framsögumaður nefndarinnar.

,,Ég tek það fram, herra forseti, að þessi breyting okkar var borin undir Læknafélagið og ýmsa sem komu til fundar við nefndina eftir að hún ákvað að gera þetta að sinni tillögu, og enginn mælti þessu í gegn.``

Því er ég að spyrja um þetta og vek athygli á þessu að það frv. sem hæstv. heilbrrh. hefur lagt fyrir Alþingi, gengur fram hjá þessum vilja Alþingis og þeirri lagatúlkun sem hér liggur fyrir og verður því að ræða það mál í ljósi þess sem fyrir liggur um lög í landinu um eignarrétt sjúklinga á upplýsingum í sjúkraskrám. Það eru upplýsingarnar sem ég er að fjalla hér um, ekki pappírsgögnin sem liggja á heilbrigðisstofnunum, heldur upplýsingarnar sem sjúklingur hefur veitt.