Upplýsingar um lyfjanotkun í gagnagrunn

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:21:59 (376)

1998-10-14 15:21:59# 123. lþ. 10.11 fundur 53. mál: #A upplýsingar um lyfjanotkun í gagnagrunn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Það er að vísu hárrétt sem fram hefur komið að það liggur ekki fyrir hvað af þeim upplýsingum sem í sjúkraskrám finnast eigi erindi inn í gagnagrunninn. Ég er ekki frá því að menn séu nú kannski komnir nokkuð fram úr sjálfum sér vegna þess að það er úrvinnsluatriði.

Hluti af sjúkraskrám í sjúkrastofnunum er t.d. þannig að ekki er hægt að vinna upp úr þeim upplýsingar sem fara mundu í gagnagrunninn. Hluti af sjúkraskrám er huglægt mat, t.d. hjúkrunarfræðinganna. (HG: Það þarf lykilinn.) Þetta er að sjálfsögðu úrvinnsluatriði. Ég hygg að erfitt sé á þessu stigi málsins að segja fyrir um hvað af þessu eigi að fara í sjúkraskrárnar. Við skulum ekki gleyma því að sjúkrastofnanirnar sjálfar munu koma að þessu máli og hafa aðstöðu til að hafa áhrif á hvaða upplýsingar fara í skrána. Það er ekki nokkur vafi á því að viss hluti upplýsinganna, ekki síst tölusettar upplýsingar eins og sjúkdómsgreiningar, jafnvel rannsóknarniðurstöður eiga erindi í grunninn. Talsvert af því sem er í sjúkraskránum á hins vegar ekkert erindi í grunninn og er vart mögulegt að færa þangað.