Miðlægur gagnagrunnur

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:38:41 (383)

1998-10-14 15:38:41# 123. lþ. 10.13 fundur 58. mál: #A miðlægur gagnagrunnur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:38]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Fyrirspurnin fjallar um miðlægan gagnagrunn og tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins, nr. R (97) 18, og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Telur ráðherra að framkomnar hugmyndir um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði samræmist tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins, nr. R (97) 18 frá 30. september 1997, og greinargerð með þeim (explanatory memorandum) ,,um vernd persónuupplýsinga sem safnað er og unnar eru í tölfræðilegum tilgangi`` (the protection of personal data collected and processed for statistical purposes)?``

Þessi tilmæli og skýringar við þau eru mikil að vöxtum, virðulegur forseti, þessi samþykkt Evrópuráðsins. Ætli það sé ekki nær 100 bls. en 50 sem þetta plagg er sem hér er um að ræða. Í þeim drögum að frv. sem svo voru kölluð og hæstv. ráðherra setti á netið í sumar var hvergi minnst á þetta ,,memorandum`` eða þessi tilmæli. Það er fyrst að ég sé þetta aðeins orðað í texta með frv., og þá aðeins sem tilvitnun en ekki er nokkurt viðhorf til þessara tilmæla. Þessi tilmæli eru reist á sáttmála frá 1981 um vélræna úrvinnslu persónuupplýsinga og það hefur verið valið að byggja á tilmælum en ekki viðaukum við þennan samning í vinnslu að þessu og umrædd tilmæli hafa verið í vinnslu sérfræðinga að mér er sagt í fimm til sjö ár þannig að í þau hefur verið lögð mikil vinna þeirra sem gerst eiga að vita um réttarstöðuna og samninginn sjálfan sem þessi tilmæli byggja á. Þau varða með beinum hætti marga þætti þessa máls, þ.e. frv. hæstv. ráðherra. En það er ekkert að finna um viðbrögð við þessu enda aðeins tæpt á því og því virðist hafa verið skotið inn í greinargerð á lokastigi, kannski eftir að þessi fyrirspurn var borin fram.

Ég gæti bent á marga þætti og geri það til glöggvunar fyrir hæstv. ráðherra. Ég bendi á gr. 4 í þessum samningi. Ég bendi á gr. 4.7. Ég bendi á gr. 4.8. Ég bendi á gr. 5, 5.4, 5.5 og 6, alveg sérstaklega 6.2, tölusett í þessum samningi, og nr. 11 og 11.1 undir gr. 11. Í þessum tilmælum, virðulegur forseti, eru hin mikilsverðu atriði sem snerta þetta mál. Ég fæ ekki séð að tekið hafi verið mikið tillit til þeirra margra hverra í sambandi við vinnslu þessa frv. En nú er að heyra skýringar hæstv. ráðherra héðan úr ræðustól, ekki bara af netinu.