Miðlægur gagnagrunnur

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:44:48 (386)

1998-10-14 15:44:48# 123. lþ. 10.13 fundur 58. mál: #A miðlægur gagnagrunnur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að taka tíma í að svara hv. þm. núna að öðru leyti en því að segja honum að í þingmáli sem ég hef lagt fram um þetta efni er vitnað til ákveðinnar reglugerðar sem hefur að geyma tilteknar undanþágur. En það snertir ekki þetta sem við hæstv. ráðherra erum að ræða hér.

[15:45]

Ég vil fylgja þessu eftir. Það var afar stutt í hæstv. ráðherra núna varðandi þetta mál. Hæstv. ráðherra ætlar að skjóta sér á bak við það eitt að upplýsingarnar verði ekki persónugreinanlegar. Ég verð satt að segja æ meira undrandi eftir því sem svörunum hér fjölgar eða viðleitni hæstv. ráðherra vex til svara. Og þetta á að vera fullnægjandi svar við því efni sem er í þessum tilmælum Evrópuráðsins. Þessi tilmæli Evrópuráðsins eru um vernd persónuupplýsinga sem safnað er og unnar eru í tölfræðilegum tilgangi. Í þessum tilmælum og skýringum við þau er einmitt fjallað ítarlega um þann nauðsynlega greinarmun sem þarf að gera á upplýsingum sem safnað er í rannsóknarskyni annars vegar og hins vegar á upplýsingum sem notaðar eru af stjórnvöldum eða öðrum í tölfræðilegum tilgangi. Á þessu ber að gera skýran greinarmun. Þarna er vikið að mörgum þáttum þar sem er eyða í frv. hæstv. ráðherra eða skellt við skollaeyrum. Þetta á t.d. við það sem kemur fram í gr. 5.5, hvað varðar ófullveðja og látna og heimildir til þess að ráðstafa upplýsingum um slíka hópa.

Þeir sem voru að skrá þetta voru kannski ekki svo uppteknir af því að það ætti að fara að safna upplýsingum úr grárri fortíð í sambandi við þessi mál. En það að látnir hafi engan rétt, ég held að það standist ekki íslenska réttartúlkun, m.a. nýlega fallna dóma í þeim efnum. Ég hvet, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, hæstv. ráðherra til að lesa í gegnum þessar upplýsingar fyrir morgundaginn þannig að hæstv. ráðherra hafi einhver svör fram að færa en ekki bara staðhæfingar um að engar persónugreinanlegar upplýsingar séu í þessum gagnagrunni. Þó svo væri, virðulegur forseti, þá er þetta svar út í hött.