Persónuvernd og gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 14. október 1998, kl. 15:48:33 (388)

1998-10-14 15:48:33# 123. lþ. 10.14 fundur 62. mál: #A persónuvernd og gagnagrunnur á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fyrirspurn á þskj. 62 til hæstv. ráðherra um persónuvernd og gagnagrunn á heilbrigðissviði, með leyfi forseta:

,,1. Hefur ráðherra hlutast til um að leitað verði álits sérfróðra aðila, innlendra og erlendra, t.d. innan Evrópuráðsins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, um álitaefni er snerta persónuvernd og hugmyndir heilbrigðisráðuneytisins um gagnagrunn á heilbrigðissviði?

2. Ef slíks álits hefur ekki verið leitað, hvenær er þá fyrirhugað að gera það og til hverra verður leitað?``

Virðulegur forseti. Þegar ég bar þessa fyrirspurn fram þá vissi ég að sjálfsögðu ekkert um hvaða svara væri að vænta við fyrirspurnum eins og hér hafa komið fram frá hæstv. dómsmrh. og nú frá hæstv. heilbrrh. En mér er það ljóst eftir það sem komið hefur fram að knýjandi nauðsyn er á að afla hlutlægra upplýsinga um þetta mál frá innlendum aðilum sem gerst vita um þessi efni. Við höfum rætt hér um vísindasiðanefnd sem hefur gefið álit og lítið hefur verið hlustað á og frá samkomum sem Ísland er þátttakandi í, alþjóðastofnunum eins og Evrópuráðinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Það ætti að vera hægurinn á að leita þar ráða og fá þar góða fyrirgreiðslu hjá þeim sem nú veitir forstöðu þeirri alþjóðastofnun, Gro Harlem Brundtland.

Ég held, í ljósi þess sem hér hefur komið fram, m.a. í svari hæstv. heilbrrh. við síðustu fyrirspurn minni um umrædd tilmæli Evrópuráðsins, að þörfin á því að fylgja því sem er á bak við þessa fyrirspurn, um að leita álits þessara aðila til að fá fram viðhorf þeirra til málsins, sé knýjandi. Spurningin er ekki um það hvort við Íslendingar ætlum að beygja okkur undir einhverjar skoðanir eða sjónarmið sem teljast yfirþjóðleg eða eitthvað þess háttar. Málið snýst ekki um það. Málið snýst um það að við reynum að fylgja tilmælum og alþjóðasáttmálum sem við erum sjálfir og sjálfviljugir aðilar að.

Varðandi tilmæli Evrópuráðsins þá var áðan svarað út í hött, gjörsamlega út í hött. Mér er að verða það ljóst að hæstv. ráðherra hefur ekkert haft fyrir því að setja sig inn í þetta mál. Ég fæ ekki séð það, virðulegur forseti, enda er bara vitnað í embættismenn. Þeir látnir skoða málið og svo fór það á netið. Svo fór málið á netið og þar með er málið gott.